Línur á korti eða manngert kerfi?

Katrín og Unnsteinn eru þáttastjórnendur Hæpsins.
Katrín og Unnsteinn eru þáttastjórnendur Hæpsins. Skjáskot/ RÚV

 „Áður en við byrjuðum vissi ég nánast ekki neitt um hvernig allt þetta ferli virkaði og fyrir mér voru landamæri einmitt bara línur á landakorti,“ segir Katrín Ásmundsdóttir, dagskrárgerðarmaður, laganemi og annar stjórnenda sjónvarpsþáttarins Hæpsins á RÚV.

„Eftir að við gerðum þáttinn finnst mér landamæri frekar vera manngert kerfi og hef fengið allt aðra sýn á hvað þau þýða eftir mismunandi heimshlutum eða hvar þú fæðist.“

Í kvöld verður seinni hluti umfjöllunar þeirra Katrínar og Unnsteins Manuels Stefánssonar um landamæri sýndur á RÚV. Fjallað er almennt um landamærahugtakið og útfærslu þess en einnig er rætt við flóttamenn sem eiga framtíð sína undir reglum og túlkunum valdhafa í tengslum við landamæri. Þannig er tveimur flóttamönnum frá Sýrlandi, Ahmed og Wajden, fylgt sérstaklega eftir í leit sinni að hæli hér á landi.

„Þeim bauðst sem sagt að berjast annaðhvort með ISIS eða stjórnarhernum og það var ekki í boði að gera hvorugt. Eins og annar þeirra sagði í þættinum þá vilja þeir ekki taka líf annars fólks og finnst það ekki sitt hlutverk. Það er meðal annars vegna þess sem þeir fóru frá sínu landi þar sem eru ekki góðar aðstæður yfirhöfuð. En við komum ekki til móts við þetta sjónarmið, að vilja ekki taka þátt í stríði.“

Í þætti kvöldsins verður áfram fylgst með Ahmed og Wajden, en við lok fyrri hluta þáttarins leit út fyrir þeir yrðu sendir til Búlgaríu á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Fjallað verður nánar um Dyflinnarreglugerðina og þátt hennar í málefnum hælisleitenda á Íslandi í þætti kvöldsins.

Hæpið er á dagskrá RÚV klukkan 20:40 í kvöld.
Hæpið er á dagskrá RÚV klukkan 20:40 í kvöld. Mynd/Hæpið

Rekin út úr húsnæði hælisleitenda

Eitt atriði í síðasta þætti vakti meiri athygli en önnur. Katrín, Unnsteinn og tökulið þáttarins voru rekin út úr húsnæði Útlendingastofnunar í Arnarholti þar sem nokkur fjöldi flóttamanna hefur aðsetur. 

„Það kom okkur svolítið á óvart að við mættum ekki vera á svæðinu eða að þeir mættu ekki fá heimsóknir. Við höfðum ekki gert okkur grein fyrir því, þeir höfðu boðið okkur að koma og vildu tækifæri til að segja sína sögu í fjölmiðlum,“ segir Katrín.

Að sögn stofnunarinnar gekk vera sjónvarpsfólksins í húsnæðinu gegn friðhelgi einkalífs þeirra sem ekki voru í viðtali og hefði hópurinn þurft samþykki allra íbúa til að taka þar upp. Stofnunin hefur hins vegar borið til baka þá staðhæfingu umsjónarmanns húsnæðisins að þeir flóttamenn sem sæjust í mynd misstu rétt sinn til verndar og yrði vísað úr landi.

Katrín vonast til að fólk muni taka sjálfstæðar skoðanir út …
Katrín vonast til að fólk muni taka sjálfstæðar skoðanir út frá umfjöllun þáttarins. Ljósmynd/ Golli

Bæði Katrín og Unnsteinn hafa sterkar skoðanir á umfjöllunarefninu, og hafði Unnsteinn m.a. skrifað opna færslu um þá Ahmed og Wajden áður en fyrri hluti landamæraumfjöllunar Hæpsins birtist. Katrín segist hins vegar vonast til að þátturinn fái fólk til að skoða eigin hug.

„Ég vona að fólk geti tekið sína eigin sjálfstæðu skoðun, að við höfum gefið fólki færi á að sjá málið frá nokkrum hliðum og það geti ákveðið sjálft hvað því finnst.“

Hæpið er á dagskrá RÚV klukkan 20:40 í kvöld. Fyrri hluti umfjöllunarinnar um landamæri má finna á Sarpinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert