Sóley hættir í borgarstjórn

Sóley Tómasdóttir.
Sóley Tómasdóttir. mbl.is/Eggert

Sóley Tómasdóttir, borgarfulltrúi Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, ætlar að hætta í borgarstjórn Reykjavíkur í haust. Þetta tilkynnir hún á Facebook í kvöld. Fjölskyldan ætli að flytjast til Hollands þar sem eiginmaður hennar Aart fer til starfa hjá hollenska hluta Marel og hún í meistaranám í uppeldisfræði.

„Ég mun kveðja borgarstjórn eftir 10 viðburðarík ár, þakklát fyrir þá dýrmætu reynslu sem ég hef öðlast og stolt af þeim verkum sem ég hef fengið að koma til leiðar. Reykjavík er frábær borg og verður stöðugt betri. Vinstri græn eiga sinn þátt í því og munu halda áfram að stuðla að sanngjarnari, grænni og femínískari borg þó að ég bregði mér af bæ. Sömu sögu er að segja af meirihluta borgarstjórnar, fjölbreyttum en samstilltum hópi sem ég vona að eigi eftir að vinna vel og lengi saman,“ segir hún. Minnihlutinn sé líka ágætur á sinn hátt og samstarf borgarfulltrúa að jafnaði gott.

„Ég er þó ekki alveg hætt. Ég verð borgarfulltrúi fram á haustið og mun leggja mig fram um að koma sem mestu til leiðar á þeim tíma sem eftir er. Og ég er auðvitað ekki hætt í pólitík. Hún mun alltaf fylgja mér – enda er lífið eitt pólitískasta viðfangsefni sem við tökumst á hendur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert