Vill taka Hollywood til Íslands

„Fólk er oft að spyrja mig af hverju ég er ekki úti í Hollywood en ég segi þá bara að mig langi að taka Hollywood hingað, og það góða af því,“ segir Baltasar Kormákur, en borgarráð samþykkti á dögunum að selja framleiðslufyrirtæki hans, RVK-studios, fjórar fasteignir í Gufunesi. Vonast Baltasar til þess að kvikmyndamiðstöð verði byggð þar upp á næstu árum.

Fyrirtækið hyggst reisa kvikmyndaver á svæðinu og greiðir rúma 301 milljón fyrir fasteignirnar. Um­rædd­ar eign­ir til­heyrðu Áburðarverk­smiðjunni og telja rúmlega átta þúsund fer­metra. Fyr­ir­tækið mun greiða tæp­ar tvær millj­ón­ir á ári vegna vil­yrðis um 19.200 fer­metra svæði aust­an bygg­ing­anna.

Gæti orðið að miðstöð íslenskra kvikmynda

Baltasar segir það hafa verið lengi í skoðun að byggja kvikmyndaver hér á landi og reikn­ar með því að af­hend­ing fari fram í lok júlí eða byrj­un ág­úst, þegar búið verði að hreinsa svæðið, en Gáma­fé­lagið hef­ur haft það til af­nota. Þá verður hægt að hefjast handa við að reisa kvik­mynda­ver og von­ast Baltas­ar til að það verði komið í gagnið í byrj­un næsta árs. Einnig verða á svæðinu höfuðstöðvar kvik­mynda­vers­ins, en lengri tíma tek­ur að reisa það, að sögn leik­stjór­ans.

Vil­yrði hef­ur verið gefið fyr­ir stærra landi í Gufu­nesi en fyrst þarf það að fara í deili­skipu­lag. Baltasar segist sjá fyrir sér að höfuðstöðvar RVK-studios verði í stöðvarhúsinu á svæðinu og kvikmyndaverið verði í skemmunni. „Vonandi getum við reist þar fjölþættari starfsemi og við erum að fara að þróa þær hugmyndir sem tengjast kvikmyndaiðnaðinum. Ef allt gengur upp getur þarna orðið miðstöð íslenskra kvikmynda,“ segir hann og bendir á að margir möguleikar bjóðist á svæðinu.

Hann seg­ir afar mik­il­vægt að byggja upp góða kvik­myndaaðstöðu á Íslandi, bæði fyr­ir inn­lenda og er­lenda kvik­mynda­gerðar­menn. Á Alþingi ligg­i fyr­ir hækk­un á end­ur­greiðslunni, sem sé mik­il­vægt svo að Ísland sé í sömu stöðu og nágrannaþjóðirnar. Þá segir hann að Ófærð 2 gæti orðið eitt af fyrstu verkefnunum sem tekið verður upp í nýja kvik­mynda­ver­inu.

„Maður verður að leyfa sér að dreyma til að ná þangað“

Eins og kunnugt er hefur Baltasar Kormákur leikstýrt kvikmyndum í Hollywood á borð við Contraband og Everest auk þess sem hann vinnur nú að stórmyndinni The Viking. Hann segir þó að þrátt fyrir að tækifærin séu mörg vestanhafs þá sé draumur hans að byggja upp kvikmyndaiðnaðinn á Íslandi.

„Fyrir mér hefur þetta allt dýpri tengingu ef ég geri þetta hérna,“ segir hann. „Fólk er oft að spyrja mig af hverju ég er ekki úti í Hollywood en ég segi þá bara að mig langi að taka Hollywood hingað, og það góða af því.“ 

Þrátt fyrir að einhverjum þyki það kannski ekki raunhæfur kostur að byggja stórt kvikmyndaver hér á landi er Baltasar fullur bjartsýni og slær á allar gagnrýnisraddir. „Það hefðu ekki margir hlustað á mig ef ég hefði sagt þegar ég var í Þinghólsskóla í Kópavogi að ég ætlaði að leikstýra Denzel Washington. Þau hefðu sent mig beint á Klepp. En maður verður að leyfa sér að dreyma til að ná þangað. Það getur vel verið að ég reynist hafa rangt fyrir mér og aðrir rétt en ég reyndi þá alla vega.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert