„Ég er að sprengja kýlin í samfélaginu“

Hildur Þórðardóttir forsetaframbjóðandi segist trúa því að við eigum ekki að sitja heima og kvarta yfir hlutunum heldur standa upp og gera eitthvað. Þörf sé á breytingum í samfélaginu og að koma að nýju fólki. 

„Það þýðir ekkert að hafa alltaf allt sama fólkið við völd. við þurfum að kjósa í öll æðstu embætti fólk sem er ekki hluti af kerfinu og þess vegna býð ég mig fram.“

Hildur segir greinilegt að þingræði virki ekki þar sem samvinna gangi illa í eilífu stríði Alþingis. Hún vilji finna leiðir til bættrar samvinnu og nefnir sem dæmi þá hugmynd að ráðherrar sitji ekki á þingi. En telur hún sig geta komið þessu til leiðar með embætti forseta? 

„Ekki ég, en við sem samfélag gerum þetta. En það er samt mikilvægt að forsetinn hindri ekki þessar breytingar.“

Hún segist  vilja vera málsvari þeirra sem minna mega sín í samfélaginu en einnig vera sterk rödd í friðarmálum erlendis. Hún er hvergi bangin þó hún mælist með lítið fylgi.

„Mér finnst að mín sjónarmið þurfi að heyrast. Ég er að sprengja kýlin í samfélaginu og segja: „Keisarinn er ekki í fötum!“ og mér finnst bara mjög mikilvægt að einhver geri það."

Orkustöðvar og krabbamein

Hildur er heilari og afar andlega þenkjandi, ef svo má að orði komast, en í framboðstilkynningu sinni sagðist hún einmitt vilja vera „andlegur leiðtogi þjóðarinnar.“

Hún segir meininguna þar á baki þó ekki hafa verið trúarlega heldur snúa að því að hún geti leitt þjóðina til aukins umburðarlyndis. Heilun snúist um að senda góða strauma til annars fólks, það sé eins og innsæið sem allir hafa þó að fólk hafi þroskað það mismikið.

Nokkur umræða skapaðist í kjölfar framboðs Hildar um fyrri yfirlýsingar hennar í tengslum við brjóstakrabbamein þar sem hún sagði orkustíflur í hjartastöð raunverulega ástæðu krabbameins og að slíkar stíflur komi til af neikvæðum tilfinningum. Hún segir orðum sínum hafa verið snúið á haus í fjölmiðlum.

„Ég var að gagnrýna að það væri verið að hvetja konur til að fjarlægja heilbrigð brjóst sem fyrirbyggjandi við krabbameini. Genið er ekkert endilega ástæðan fyrir krabbameini. Ég var að mótmæla því að það væri verið að fjarlægja heilbrigða líkamshluta sem fyrirbyggjandi aðgerð. Ég er ekki að segja að tilfinningar valdi krabbameini, ég sagði í  lokin: „Þar til það er búið að sanna þetta betur skulum við sýna tilfinningunum meiri athygli.“ Það er allt í lagi að heyra ólík sjónarmið.“

Þó svo að Hildur standi fast á því að hún hafi aldrei sagt að tilfinningar valdi krabbameini er hún hörð á því að tilfinningar valdi sjúkdómum. Aðspurð um hvort hún óttist ekki að orð hennar verði til þess að  fólk leiti sér ekki nauðsynlegrar velferðar segir hún svo alls ekki vera. Hún hvetji þvert á móti konur til að fara í leitarstöðina og láta rannsaka sig.

Frambjóðandi valdsins

Hildur skrifaði grein um Guðna Th. Jóhannesson í síðustu viku þar sem hún kallaði hann frambjóðanda valdsins, en Guðni er með langmest fylgi af forsetaframbjóðendunum níu samkvæmt skoðanakönnunum.

Hildur segir að Guðni sé eflaust vænsti maður og bersýnilega eldklár en að þau öfl sem standi að baki honum séu öfl sem ekki eigi að vera á Bessastöðum.

„Við þurfum ekki annað en að skoða hverjir eru í kosninganefnd Guðna,“ segir Hildur. Hún segir Ríkisútvarpið hafa verið hlutdrægt og veitt Guðna mjög góðan auglýsingatíma í fréttatímum og spjallþáttum þegar greinilegt var að hann og fólkið sem styður hann var byrjað að íhuga framboð.

„Svo er ég líka að benda á ímynd þessa manns. Hann var alltaf svona hversdagslega klæddur áður, maður fólksins í peysu og mjög heillandi sem slíkur. Þarna er hann kominn í jakkaföt til að upphefja sig eða fá meiri virðingu.“

Þetta segir Hildur útspekúlerað af útlitssérfræðingum, hún hafi sjálf lært útlitsráðgjöf og viti vel hvernig þetta virki. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert