Engin lausn í sjónmáli í deilu flugumferðarstjóra

Enn ber mikið á milli í kjaradeilu flugumferðarstjóra og Isavia.
Enn ber mikið á milli í kjaradeilu flugumferðarstjóra og Isavia. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Ekkert virðist þokast í kjaradeilu flugumferðarstjóra við Isavia, en yfirvinnubann flugumferðarstjóra varð þess valdandi nú í morgun að engin umferð fór um Keflavíkurflugvöll frá því tvö í nótt og þangað til sjö í morgun.

Sigurjón Jónasson, formaður Félags íslenskra flugumferðarstjóra, segir deiluaðila síðast hafa fundað sl. föstudag. „Á síðasta fundi gerðu þeir okkur sama tilboð og þeir lögðu fram í byrjun apríl, en höfðu bætt við það einhvers konar yfirvinnuskyldu sem okkur hugnaðist ekki. Við sáum því ekki ástæðu til að funda áfram þann daginn.“

Ekkert liggur fyrir um frekari viðræður flugumferðarstjóra og Samtaka atvinnulífsins, sem semja fyrir hönd Isavia. Ragnar Árnason, forstöðumaður vinnumarkaðssviðs Samtaka atvinnulífsins, segir að deiluaðilum beri að funda hjá Ríkissáttasemjara á a.m.k. tveggja vikna fresti og því verði í síðasta lagi fundað aftur í lok næstu viku.

Miðlunartillaga ekki á borðinu

Enn beri þó mikið á milli. „Við erum bundin þeim kostnaðarmörkum sem eru í rammasamkomulaginu sem aðilar vinnumarkaðarins gerðu í nóvember á síðasta ári. Félag flugumferðarstjóra á aðild að BSRB, sem á svo aftur aðild að rammasamkomulaginu, er hins vegar ekki að vinna sína kröfugerð á grundvelli þess samkomulags,“ segir Ragnar og telur ólíklegt að lausn deilunnar sé í sjónmáli.

Að sögn Elísabetar S. Ólafsdóttur, skrifstofustjóra hja embætti Ríkissáttasemjara, mun hún hafa samband við deiluaðila nú eftir helgi til að boða næsta fund. Hún segir engar hugmyndir hins vegar vera uppi um miðlunartillögu á þessum tímapunkti. 

Sáttir við að vera lausir við yfirvinnuna

Flugumferðarstjórar hafa verið í yfirvinnubanni frá því 6. apríl sl. og segir Sigurjón gott hljóð í flugumferðarstjórum vegna þess. „Félagsmenn eru bara nokkuð sáttir við að vera lausir við alla þessa yfirvinnu og það er góður andi í hópnum,“ segir hann. Samninganefndin hafi þá ekki rætt að fara út í neinar frekari aðgerðir í tengslum við kjaradeiluna að svo stöddu, en flugumferðarstjórar standi fast á sínu.

„Við höfum bent á að við erum að koma úr löngum kjarasamningi sem var gerður til fimm ára og á þeim tíma drógumst við þó nokkuð aftur úr almennri launaþróun í landinu og okkar viðmiðunarstéttum,“ segir Sigurjón. „Laun okkar eru ekki samkeppnishæf, hvorki við flugstjóra né við flugumferðarstjóra erlendis og þangað til að viðsemjendur okkar fara að taka tillit til þess þá sé ég ekki að við séum að fara að landa þessum samningi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert