Örtröð í komusalnum í morgun

Flugstöð Leifs Eiríkssonar.
Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Sigurður Bogi Sævarsson

Ekkert áætlunarflug var um Keflavíkurflugvöll frá því klukkan tvö í nótt og þar til klukkan sjö í morgun vegna yfirvinnubanns flugumferðarstjóra, eftir að tveir flugumferðarstjórar tilkynntu sig veika í gær. Búast má við hálftíma til eins og hálfs tíma seinkun á fyrstu morgunvélum vegna þessa, að sögn Guðna Sigurðssonar, upplýsingafulltrúa Isavia. 

Engar vélar voru á brottför eftir klukkan tvö í nótt og því gætti áhrifanna fyrst á vélarnar sem komu úr Bandaríkjafluginu. „Allar vélarnar sem voru að koma frá Norður-Ameríku eru lentar. Þær komu hér inn í röð strax um sjö í morgun og voru bara örfáar mínútur á milli lendinga. Þessar vélar eru síðan á leiðinni út til Evrópu þannig að við gerum ráð fyrir að það verði seinkanir á þeim,“ sagði Guðni og kvaðst telja seinkunina verða á bilinu hálfur til einn og hálfur tími.

Töluverð örtröð myndaðist í komusalnum, en ástand í brottfararsalnum var nokkuð gott. „Það er margt fólk í komusalnum. Núna stend ég í suðurbyggingunni við röðina að landamæraeftirlitinu og það er nokkur örtröð hér, en röðin gengur þó nokkuð hratt,“ segir Guðni sem áætlar að hátt í 4.000 manns hafi verið í flugvélunum sem komu inn til lendingar á sama tíma.

Hann segir innritun farþega hins vegar hafa gengið vel fyrir sig og  því hafi ástandið í brottfararsalnum verið eðlilegt. „Flugfélögin brugðust skjótt við og létu farþega vita þannig að fólk tók þessu með ró.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert