Snúið við skömmu eftir flugtak

Farþegar Icelandair til Gautaborgar komust ekki á áfangastað í nótt.
Farþegar Icelandair til Gautaborgar komust ekki á áfangastað í nótt. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Bilun kom upp í flugvél Icelandair sem átti að fljúga til Gautaborgar skömmu eftir miðnætti í nótt. Vélinni var lent aftur á Keflavíkurflugvelli 20–25 mínútum eftir flugtak en vegna yfirvinnubanns flugumferðarstjóra gat hún ekki haldið för sinni áfram eftir það.

Vélin lagði af stað frá Keflavík kl. 00:10. Blaðamaður mbl.is sem var um borð í vélinni segir að hann hafi fengið þær upplýsingar að skömmu eftir flugtak hafi mælar sýnt að vinstri vængur Öskju, flugvélar Icelandair, væri að missa olíu. Því var lent aftur í Keflavík um klukkan eitt og litu flugvirkjar á vélina.

Vegna yfirvinnubannsins var hins vegar flug um flugvöllinn takmarkað við sjúkra- og neyðarflug á milli klukkan tvö og sjö í morgun. Ástæða takmörkunar var sú að tveir flug­um­ferðar­stjór­ar sem áttu að vera á vakt­inni í nótt voru veik­ir og vegna yf­ir­vinnu­bannsins fengust ekki flug­um­ferðar­stjór­ar til af­leys­inga. Vélin fór því ekki lengra.

Unnið var að því að koma farþegum vélarinnar í aðrar flugferðir. Blaðamaður mbl.is segir að honum verði komið í ferð til Stokkhólms kl. 8 og þaðan áfram til Gautaborgar.

Ferðum Icelandair til og frá Gautaborg í dag hefur verið aflýst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert