Þungu fargi létt af fjölskyldunni

Snæfríður Ingadóttir með Ragnhildi móður sinni. Málinu lauk með sátt.
Snæfríður Ingadóttir með Ragnhildi móður sinni. Málinu lauk með sátt. mbl.is/Golli

Þungu fargi er létt af Snæfríði Ingadóttur og fjölskyldu hennar, eftir að sátt náðist í gær í dómsmáli sem foreldrar hennar höfðuðu gegn Kópavogsbæ. Snæfríður, sem er með sjald­gæf­an augn­sjúk­dóm og skil­greind lög­blind, átti sér þá ósk að fá sams kon­ar leigu­bílaþjón­ustu og ná­granna­sveit­ar­fé­lög­in bjóða upp á.

„Við getum eiginlega ekki lýst því hvernig okkur líður,“ segir Ragnhildur Bjarkadóttir, móðir Snæfríðar. „Þetta er besti mögulegi endir sem hægt er að hugsa sér á svona erfiðu máli.“

Sátt­in ger­ir ráð fyr­ir því að Kópa­vogs­bær setji á lagg­irn­ar til­rauna­verk­efni sem tek­ur mið af þjón­ustuþörf Snæfríðar með öðru­m hætti en sú þjón­usta sem henni hafði áður staðið til boða af hendi ­bæjarins og á reynsl­an af þessu til­rauna­verk­efn­i að nýt­ast Kópa­vogs­bæ til að út­færa fjöl­breytt­ari leiðir að þjón­ustu við þann hóp sem þarf að ferðast með ferðaþjón­ustu fatlaðra, að því er sagði í fréttatilkynningu sem Kópavogsbær sendi frá sér í gær.

Mannlegi þátturinn kominn inn

„Það sem við finnum núna er að þessi mannlegi þáttur hann er kominn inn í málið og það er eins og maður vill að sveitarfélög starfi – að um leið og þau heyri kallið þá grípi þau boltann,“ segir Ragnhildur og kveður þau glöð að geta tekið þátt í þessu tilraunaverkefni.

Hún segir Kópavogsbæ bjóða Snæfríði svipaðan fjölda ferða og gert sé hjá Reykjavíkurborg, ásamt ákvæði um að skoðað verði hvernig þróunin verði hjá henni.

„Það eru engin orð sem geta lýst viðbrögðum Snæfríðar þegar ég sagði henni að við værum ekki að fara í dómsal í fyrramálið. Henni eiginlega féllust hendur og svo var hún í allt gærkvöld að átta sig á þessu.“ Ragnhildur segir fjölskylduna hafa fengið kveðjur víða að eftir að tilkynnt var um sáttina. „Ég horfði á Snæfríði vaxa í gær og hún er alsæl og glöð yfir að sveitarfélagið skyldi ákveða að fara í lið með henni.“

Ragnhildur segir þungu fargi af fjölskyldunni létt og kvíðinn fyrir sumrinu sé nú horfinn. „Við vissum ekki hvað dómsmálið myndi taka langan tíma, en nú getum við horft björtum augum fram á sumarið eins og við viljum að 14 ára unglingar geti gert.“  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert