Vill rannsaka þátt þýska bankans

Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra.
Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra segir að rannsaka þurfi þátt þýska bankans Hauck & Aufhauser Privatbankiers KgaA í kaupunum á hlut ríkisins í Búnaðarbanka Íslands árið 2003.

Þetta sagði hann í svari sínu við fyrirspurn Óttars Proppé, þingmanns Bjartrar framtíðar, þar sem Óttarr spurði hvort málið yrði rannsakað. Vísaði Óttarr í orð Tryggva Gunnarssonar, umboðsmanns Alþingis, fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd um nýjar upplýsingar varðandi einkavæðingu bankanna.

„Þetta eru nýjar upplýsingar sem gæti verið áhugavert að varpa ljósi á, ekki síst í því samhengi að við eigum eftir að skilgreina hvernig við viljum sjá fjármálamarkaðinn til framtíðar,“ sagði Sigurður Ingi og taldi gagnlegt að rannsaka málið til að geta dregið af því lærdóm.

Hann sagði einnig skynsamlegt að rannsaka frekar hina svokölluðu einkavæðingu síðari, eða það sem gerðist eftir hrun.

S-hópurinn svonefndi keypti kjölfestuhlut í Búnaðarbankanum í janúar 2003. Þýski bankinn var þá sagður einn af kaupendunum en efasemdir hafa lengi verið uppi um hvort þáttur bankans í kaupunum hafi í raun verið sá sem hann sjálfur kynnti.

Frétt mbl.is: Gæti legið fiskur undir steini 

Frétt mbl.is: Útilokað að bankinn hafi keypt hlut

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert