Guðrún Margrét: Blessun þjóðarinnar?

Guðrún Margrét á framboðsfundi sínum.
Guðrún Margrét á framboðsfundi sínum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Guðrún Margrét Pálsdóttir forsetaframbjóðandi segist mundu standa fyrir góðum gildum í embætti. Hún trúir því að hún hafi hlutverk og muni vera til blessunar fyrir íslensku þjóðina í ýmsum málum, t.d. þannig að Íslendingar hlúi að rótum sínum.

Þetta kom fram í beinni útsendingu forsetaspjalls Nova þar sem Guðrún sat fyrir svörum en áhorfendur gátu sent inn spurningar í athugasemdakerfi fyrirtækisins á Facebook.

„Trúin er það mikilvægasta í mínu lífi, það er bara þannig, og að gera gott, hjálpa þeim sem minna mega sín og ég myndi vilja sjá þessa þjóð eignast þessa trú sem ég á,“ sagði Guðrún m.a.

Þegar hún var beðin um að telja upp þrjá drauma sem hún hefur fyrir þjóðina nefndi hún fyrst þá hugsjón að allir hafi nóg til að bíta og brenna, að allir geti upplifað þá trú sem er svo mikilvæg í hennar lífi – ræturnar sem Íslendingar hafi glatað en sé mikilvægur fjársjóður – og að þjóðin geti orðið öðrum þjóðum til blessunar, t.d. með því að útrýma ólæsi í heiminum.

Spurð um sitt fyrsta verk, yrði hún kjörin forseti, sagði hún það vera að þakka traustið.

„Næsta verk væri trúlega bara að opna Bessastaðakirkju. Ég trúi því að það skipti máli að það sé beðið fyrir þessari þjóð. Ég hef áhyggjur af unga fólkinu okkar, öllum þeim sem búa við þunglyndi og kvíða.“

Sagði hún marga standa „bænavaktina“ í heimahúsum en að hún vilji sjá hana sameinaða á einum stað. „Og hvar betra en í Bessastaðakirkju?!“

Þá ræddi Guðrún um tíma sinn hjá ABC barnahjálp.

„Ég var eiginlega mjög hissa, eftir að hafa lagt líf mitt í þetta í 27 ár, að geta gengið út og ég var bara frjáls. Saknaði einskis og vissi að þetta var í góðum höndum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert