Í þyrlu á meðan aðrir greiði bílalán

Katrín Júlíusdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar.
Katrín Júlíusdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Styrmir Kári

„Þarna eru einstaklingar sem við vitum að brutu gegn samfélaginu og hefur verið refsað. Þeir hafa fengið miklar afskriftir og eru með eignir í skattaskjólum, en eru svo að dingla sér í þyrlunni sinni á meðan við hin erum með bílana okkar á bílalánum,“ sagði Katrín Júlíusdóttir, þingmaður Sam­fylk­ing­ar­inn­ar, í þætt­in­um Viku­lok­in á Rás 1.

Katrín sagði umræðu síðustu daga eftir slys þyrlu í eigu Ólafs Ólafssonar sýna að þjóðin er enn í sárum eftir bankahrunið 2008. „Við erum ekki búin að gera þetta hrun nægilega upp og það er mjög stutt í reiðina,“ sagði hún.

Katrín ræddi fréttir vikunnar í þættinum ásamt Drífu Snædal, framkvæmdastjóra Starfsgreinasambandsins, og Willum Þór Þórssyni, þingmanni Framsóknarflokksins. Þyrluslysið bar þar m.a. á góma og breytingar á lögum um fullnustu refsinga.

Fólk verði ekki að betri manneskjum eftir fangelsisvist

Drífa sagði að sín afstaða væri sú að forðast ætti að stinga fólki inn í fangelsi eins og unnt væri þar sem fangelsisvist gerði fólk ekki að betri manneskjum. Samfélagsþjónusta væri fýsilegri kostur. „En ef breytingar á lögum hafa verið sérsniðnar að ákveðnum einstaklingum þá er það ekki í lagi,“ sagði hún.

Willum Þór var fljótur að bregðast við og sagði að lagabreytingarnar hafi síður en svo verið sniðnar að ákveðnum einstaklingum. Um almennar aðgerðir hafi verið að ræða, sem sátt hafi verið um í þinginu. „Það er sorglegt ef umræðan er komin þangað,“ sagði hann.

Katrín tók undir með Drífu um að hún teldi fólk ekki verða að betri manneskjum eftir fangelsisvist. Þá væri gríðarlegt álag á íslenskum fangelsum og fólk þyrfti að bíða lengi eftir að komast inn. „Á meðan erum við að brjóta þetta fólk niður,“ sagði hún og benti á að breytingin á lögunum væri ein leið til að losna við þessa löngu biðlista. „Auðvitað var það ekki þannig að þetta væri sérsniðið að þessum aðilum, en ég skil reiðina.“

Afleiðingar hrunsins sitja enn í fólki

Þá sagði Katrín að Samfylkingin væri dæmi um flokk sem nái ekki að líta nægilega vel til framtíðar og þung mál eins og bankahrunið og afleiðingar þess sætu enn í fólki. Sagði hún að það gæti tekið tvær kosningar til viðbótar fyrir flokkinn að jafna sig. Þá talaði hún fyrir því að allir ferlar yrðu gerðir gagnsærri, svo ekki væri hætta á því að ákveðinn hópur fengi sérmeðferð.

Willum sagði að mikilvægt væri að átta sig á því að um ferli væri að ræða. „Til að breyta hefðum getum við sett reglur en það sem er jafnmikilvægt gerist samhliða og það er viðhorfsbreyting sem er gildislæg,“ sagði hann.

Krafa mótmælenda ekki að Sigmundur Davíð færi í mánaðarfrí

Þá var staða þingflokkanna m.a. rædd og komandi kosningar í haust. Sagði Drífa að hún hefði töluverðar áhyggjur af því að verið væri að draga í land með kosningarnar. „Krafa mótmælenda við Austurvöll var ekki sú að Sigmundur Davíð færi í mánaðarfrí. Krafan var skýr um það að stokka upp og fara í það uppgjör sem hefur leitt okkur til þess að í umgjörðinni er hneigð til að setja peninga hærra en fólk.“

Willum Þór sagði það persónulega skoðun sína að ekki ætti að kjósa í haust, en að hann ætti samt von á því að það yrði gert. Þá sagðist Katrín hafa efast um það um tíma að kosningarnar færu fram í haust og að tími væri kominn til þess að stjórnarflokkarnir gæfu upp dagsetningu á kosningum. „Ég er farin að hallast að því að ef þessi dagsetning fer ekki að koma þá þurfi að grípa til gömlu skotgrafaraðgerðanna,“ sagði hún.

Skoða þyrfti LÍN-frumvarpið mjög vel

LÍN-frumvarpið var einnig rætt og voru Drífa og Katrín sammála um það að í fréttatilkynningu frá menntamálaráðuneytinu hefði frumvarpið verið látið líta betur út en raun bæri vitni. „Þetta var sykurhúðaðasta fréttatilkynning sem ég hef séð. Það hljómaði allt voða vel og fyrirsagnirnar voru flottar en svo þegar maður fór að lesa það sem stóð undir fyrirsögnunum sá maður t.d. að verið er að hækka vextina,“ sagði hún.

Voru viðmælendurnir allir sammála um að skoða þyrfti frumvarpið vel, en Drífa sagði að með því væri síður tekið tillit til stöðu hvers og eins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert