Vilja draga úr tollvernd landbúnaðar

Landbúnaður er fjölbreyttur. Nú stendur til að reyna að einfalda …
Landbúnaður er fjölbreyttur. Nú stendur til að reyna að einfalda samskipti ríkis og bænda. mbl.is/Sigurður Bogi

Í búvörusamningunum, sem liggja nú fyrir Alþingi, skortir hvata til aukinnar samkeppni. Stjórnvöld verða að marka skýra stefnu um hvernig draga megi úr tollvernd í landbúnaðarframleiðslu og tryggja að framlag landbúnaðar til landsframleiðslu aukist frá því sem nú er.

Þetta er á meðal þess sem fram kemur í umsögn Samtaka atvinnulífsins um frumvarp til laga um breytingar á búvörulögum, búnaðarlögum og tollalögum. Frumvarpinu er ætlað að laga ofangreind lög að nýjum búvörusamningum sem stjórnvöld hafa gert við samtök í landbúnaði og er ætlað að gilda til næstu tíu ára.

Í umsögninni segir að beinir og óbeinir opinberir styrkir til landbúnaðar nemi 1,1% af landsframleiðslu samkvæmt gögnum frá OECD, eða um 22 milljörðum króna, sem er 6 milljörðum króna umfram vinnsluvirði greinarinnar. Framlag greinarinnar til landsframleiðslu sé því neikvætt sem þessu nemur.

Samtökin telja ekki óeðlilegt að íslenskur landbúnaður njóti opinbers stuðnings en brýnt sé að stuðningurinn hvetji til hagræðingar og aukinnar samkeppni innan greinarinnar. Þau segja að skref til að stuðla að þessu í búvörusamningunum séu bæði óljós og engan veginn nægileg í ljósi þess að samningarnir gildi til næstu tíu ára.

Samkeppnisstaðan versni

Þá benda þau á að feli búvörusamningarnir ekki í sér skýra hvata til hagræðingar og framleiðniaukningar verði að beita tollalækkunum á innfluttar búvörur til að ná því fram.

„Þess vegna mótmæla Samtök atvinnulífsins því að færa eigi magntolla á mjólkur- og undanrennudufti og ostum aftur til sama raunverðs og gilti í júní 1995, þegar GATT-samningurinn tók gildi hér á landi, sbr. 13. gr. samnings um starfsskilyrði nautgriparæktar og 62. gr. þessa frumvarps. Um er að ræða um 150% hækkun á magntollum. Að óbreyttu mun hækkun á magntollum leiða til 34% hækkunar á innfluttu mjólkurdufti að jafnaði og 32% hækkunar á innfluttum ostum.

Enginn haldbær rökstuðningur hefur komið fram fyrir þessari auknu tollvernd sem mun draga úr samkeppnishæfni innlendrar framleiðsluvöru sem nota umrædd hráefni og skapa verulega innflutningshindrun,“ segir í umsögninni.

Hækki verð á mjólkurdufti enn frekar, vegna hækkunar á magntollum, muni samkeppnisstaða íslenskra framleiðenda enn versna. Nær væri að gera íslenskum framleiðendum kleift að nálgast hráefni á verði sem sé samkeppnishæft við það sem erlendir keppinautar njóta. Til að svo megi verða þurfi að draga stórlega úr tollvernd á mjólkurdufti, smjöri og eggjum, svo dæmi séu nefnd.

Þá leggja Samtök atvinnulífsins áherslu á að dregið verði úr tollvernd á alifugla- og svínakjöti á næstu misserum. Verndarstefna gagnvart þessu kjöti haldi uppi hærra matvælaverði en þyrfti að vera og sé á kostnað neytenda sem búa við lakari lífskjör en ella.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert