Frá El Salvador til Ísafjarðar

Isabel er hér til hægri ásamt vinkonu sinni.
Isabel er hér til hægri ásamt vinkonu sinni. Mynd/Úr einkasafni

„Mér skilst að ég hafi náð íslenskunni mjög fljótt. Ég var strax farin að þýða fyrir mömmu og pabba,“ segir Isabel Alejandra Diaz sem útskrifaðist úr Menntaskólanum á Ísafirði á laugardag með hæstu einkunn allra nemenda í íslensku en hún flutti til Ísafjarðar fjögurra ára gömul frá Mið-Ameríkuríkinu El Salvador.

„Ég held ég hafi sýnt það að ég kann íslensku frekar vel. Ég tala íslensku betur en spænskuna,“ bætir Isabel við en hún talar spænsku heima fyrir.

Isabel býr hjá ömmu sinni og afa en hún hefur alist upp hjá þeim frá barnsaldri. Þar að auki segist hún eiga frábæra íslenska fjölskyldu, meðal annars íslenska ömmu og afa. „Ég kalla íslensku fjölskylduna mína frændsystkini mín. Þau eru sum á mínum aldri. Við vorum mikið að leika saman. Það hefur eflaust hjalpað mér mjög mikið. Svo byrjaði ég í leikskóla og fór strax að tala íslensku.“

Íslensk menning og saga heillar

Íslenska er uppáhaldsfag Isabel ásamt sögu. „Mér finnst íslenska bara svo merkileg. Í þessum áföngum sem við tókum í skólanum vorum við ekki bara að læra málfræði og stafsetningu. Við vorum líka meðal annars að lesa Íslendingasögur. Þetta er mitt áhugasvið, Íslendingasögur, allt þetta íslenska. Þetta er það sem ég elska,“ segir Isabel sem hyggur á háskólanám á næsta ári.

„Í byrjun þessa árs breyttust plönin mín. Ég veit hvað ég vil læra en er ekki tilbúin að yfirgefa Ísafjörð alveg strax. Ísafjörður er mér rosalega kær. Eftir ár ætla ég í háskóla. Mig langar til þess að læra ferðamálafræði og læra líka spænsku svo ég geti talað hana eins og ég tala íslensku. Þetta er allt saman mitt áhugasvið, saga, menning og tungumál. Sagnfræðin kallar svolítið á mig, það er algjörlega út af þeirri menntun sem ég hef fengið hér á Ísafirði frá kennurunum. Það eru hér góðir og skemmtilegir söguáfangar,“ segir Isabel.

Isabel tók í náminu einnig áfanga þar sem hún saumaði eigin þjóðbúning og bar hún hann við útskriftina í dag. „Ég saumaði 20. aldar upphlut og mun að sjálfsögðu vera í honum við útskriftina. Þetta er gripur sem ég mun varðveita. Ég hef alltaf borið virðingu fyrir íslenska þjóðbúningnum og fyrir þeim sem taka að sér að sauma svona búning sjálfir. Þetta er rosaleg vinna. Nú þegar ég hef séð hversu mikil vinna er að baki þá hefur sú virðing fjórfaldast,“ segir Isabel og bætir við: „Þetta var mikil þolinmæðisvinna. Hendurnar og puttarnir eru ánægðir með að þetta sé búið en þetta var líka lærdómsríkt og algjörlega þess virði.“

Isabel tók áfanga í MÍ þar sem hún saumaði eigin …
Isabel tók áfanga í MÍ þar sem hún saumaði eigin 20. aldar upphlut. Mynd/Úr einkasafni

Isabel segist líta á sig sem Ísfirðing og Íslending. Hún fékk íslenskan ríkisborgararétt árið 2014. Hún hefur áður sagt sögu sína, meðal annars í Kastljósviðtali árið 2007, sem vakti mikla athygli. Saga hennar er áhrifamikil.

Árið 1993 voru langafi og langamma hennar í móðurætt myrt á hrottalegan hátt í El Salvador. Morðingjarnir voru glæpamenn, þekktir úr glæpagengjum í heimalandinu. Amma hennar og afi voru á þessum tíma vel stæð og bjuggu í San Salvador, höfuðborg El Salvador. Glæpamenn fóru að hóta þeim og reyna að kúga út úr þeim peninga. Þurftu þau að leita sér verndar hjá lögreglu. 

Isabel fæddist árið 1996 og hefur frá upphafi alist upp hjá ömmu sinni og afa. Árið 1999 varð ástandið aftur orðið slæmt og ofsóknir glæpagengjanna að hefjast á nýjan leik. Fór svo að afi hennar og amma flúðu frá El Salvador til Bandaríkjanna. Var Isabel þá þriggja ára gömul. Voru allar eigur þeirra skildar eftir í heimalandinu. Var ömmu hennar og afa ráðlagt að senda Isabel aftur til heimalandsins þrátt fyrir að vera með fullt forræði yfir henni. Þetta tóku þau ekki í mál og ákváðu að hún skyldi ávallt fylgja þeim. Fjölskyldan hafði tveimur árum áður kynnst íslensku fólki sem orðin varð hluti af fjölskyldu þeirra. Hún veitti þeim aðstoð við að koma sér fyrir í Skutulsfirði.

Lögfræðingur fjölskyldunnar lést í jarðskjálfta

Isabel segir Ísfirðinga hafa tekið sér opnum örmum. Skömmu eftir komu hennar til Ísafjarðar hafi þó hafist barátta fyrir dvalarleyfi. Málið var flókið þar sem hún var barnabarn „foreldra sinna“ og löggjöfin í El Salvador frábrugðin þeirri íslensku. Þurfti þvi að endurnýja dvalarleyfið með reglubundnu millibili. Málið hafi svo flækst enn þá meira þegar lögfræðingur fjölskyldunnar í El Salvador lét lífið í mannskæðum jarðskjálfta og öll gögn hennar þar í landi týndust.

Árið 2011 fóru afi hennar og amma aftur til El Salvador og dvöldust þar. Var fjölskyldan á þessum tímapunkti orðin þreytt og foreldrar hennar ákváðu að fara út til El Salvador til að ahuga hvort eitthvað væri hægt að laga ástandið þaðan eða hvort þau þyrftu mögulega að snúa öll aftur heim. Isabel var þá staðráðin í því að verða eftir á Íslandi enda var Ísland orðið að heimalandi hennar. Lagði þá Útlendingastofnun til að barnaverndarnefnd Vestfjarða tæki yfir forræðið og að henni yrði komið fyrir hjá fjölskyldu sinni á Ísafirði. Við það fékk hún dvalarleyfi til 18 ára aldurs og átti þess svo kost að sækja um ríkisborgararétt, sem hún hlaut árið 2014.

Farsæll endir á ferlinu

Nú fjórum árum seinna sit ég hér með traustan sess í samfélaginu. Ég er mjög hamingjusöm. Þetta ferli hefur verið langt og erfitt en endaði þó vel. Fjölskyldan hefur þurft að þola mikinn sársauka, reiði, óvissu og missi. En án þess alls værum við einfaldlega ekki hér. Á hverju ári 13. febrúar er andrúmsloftið fremur þungt.“

„En amma mín er hugrökk kona sem er búin að fyrirgefa þessum glæpamönnum, bæði fyrir það sem þeir gerðu foreldrum hennar og henni sjálfri. Ótrúlegir hlutir hafa gerst,“ segir Isabel um raunir sínar og fjölskyldunnar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert