Dúxinn stefnir á leiklistarnám

Helga Margrét Höskuldsdóttir er dúx Fjölbrautaskólans í Garðabæ í ár.
Helga Margrét Höskuldsdóttir er dúx Fjölbrautaskólans í Garðabæ í ár. Ljósmynd/Gunnar H. Ársælsson

„Að mæta í tíma, vinna eins mikið þar og maður getur og skila alltaf öllum verkefnum,“ segir Helga Margrét Höskuldsdóttir, dúx Fjölbrautaskólans í Garðabæ í ár, aðspurð hver sé lykillinn að góðum námsárangri.

Helga Margrét útskrifaðist í gær af tveimur brautum skólans, bæði leiklistar- og alþjóðabraut, með einkunnina 9,04 að meðaltali. Hún segir mætinguna skipta miklu máli. Það muni miklu að mæta vel og læra jafnframt jafnt og þétt yfir allt árið.

Samtals útskrifuðust 83 að þessu sinni, þar af 69 með stúdentspróf. Tuttugu útskrifuðust af listnámsbrautum, líkt og Helga.

Helga Margrét, sem er dóttir þeirra Hildu Pálmadóttur og Höskuldar Gunnarssonar, lét þó félagslífið ekki sitja á hakanum - síður en svo. Hún var í Gettu betur-liði skólans í tvö ár og tók einnig virkan þátt í störfum leikfélags nemendafélagsins.

„Ég var í Gettu betur-liðinu síðustu tvö árin. Við komumst alla leið í úrslitin í fyrra og átta liða úrslit í ár,“ segir hún. Ansi mikill tími hafi farið í æfingar, eins og vera ber, en hún segir reynsluna munu nýtast sér vel.

Eins og áður sagði útskrifaðist Helga Margrét meðal annars af leiklistarbraut, en hún segir leiklist hafa verið uppáhaldsfagið sitt í skólanum. „Ég var í leikfélaginu. Tók þátt í uppsetningu á söngleikjum fyrstu tvö árin mín og sat í stjórninni þriðja árið.“

Leiklistin heillar hana og stefnir hún jafnvel á frekara leiklistarnám í framtíðinni. „Ég er líklegast að fara til Spánar í haust sem au-pair. Það er næst á dagskrá - að taka sér smápásu frá náminu.“

Í kjölfarið stefnir hún á leiklistarnám, annaðhvort í Listaháskólanum hér heima eða í skóla erlendis. Það eigi allt eftir að koma í ljós.

Frá brautskráningu FG í gær.
Frá brautskráningu FG í gær. Ljósmynd/Gunnar Hólmsteinn Ársælsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert