Lúxussnekkja í Hvalfirði

Glæsileg snekkja hefur legið við akkeri í Hvalfirði frá því á föstudag. Snekkjan, sem ber nafnið T6 og er skráð á Cayman-eyjum, lá í vari inni fyrir Hvítanesi aðfaranótt laugardags í hávaðaroki.

Árni Hallgrímsson, sem tók meðfylgjandi myndskeið frá Hvítanesi, birti frásögn af skútunni og farþegum hennar á Facebook.

„Áströlsk kona með barn á öðru ári, sem var um borð með fleiri löndum sínum og nágrönnum frá Nýja Sjálandi, sagði að skröltið í akkeriskeðjunum hefði gert út um fastan svefn. Hún spurði hæversklega hvort ég gæti ekki fallist á að það hefði verið hvasst.

Í morgun þegar ég mætti fólkinu frá Down Under spurði það margra spurninga og var greinilega heillað af Hvalfirði, hvalstöðinni, sem það virti fyrir sér úr hæfilegri fjarlægð, og ekki síður hvalbátunum að ekki sé minnst á sögu fjarðarins í seinni heimsstyrjöldinni, sem þau höfðu reyndar ekki hugmynd um áður.“

Árni segir snekkjuna vel búna og að neðan þilja sé þyrla sem „lyft er upp þegar þilfarið opnast á einhvern óskiljanlegan hátt.“ Í samtali við mbl.is segir hann ljóst að farþegarnir hafi séð nokkuð af landinu þrátt fyrir að T6 hafi setið sem fastast í firðinum þar sem þyrlan hafi margsinnis verið send af stað með ferðamennina innanborðs. Telur hann að um eins þyrlu sé að ræða og þá sem hrapaði í síðustu viku með Ólaf Ólafsson og gesti hans innanborðs.

Snekkjan ku vera í eigu föður eins ferðalanganna. Segir Árni að þeir fari af landi brott á þriðjudag en muni hitta snekkjuna og áhöfn hennar í Noregi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert