„Pabbi! Klósettið er að tala við mig!”

Frá Laugarvatni.
Frá Laugarvatni. mbl.is/Sigurður Bogi

Hjálmar Gíslason, framkvæmdastjóri fyrirtækisins Qlik og „stoltur nörd“, vakti mikla lukku við útskriftarathöfn Menntaskólans að Laugarvatni um helgina með ræðu sinni um „Þrjú leyndarmál“.

„Það er sem sagt venjan að fulltrúi 20 ára stúdenta haldi ræðu og ég varð fyrir valinu,“ segir Hjálmar. Í ræðunni játaði hann meðal annars á sig ferð um lagnaganga skólabyggingarinnar, þar sem klósett skólakokksins kom við sögu. Hjálmar segir söguna dagsanna.

„Barnið sem sat á klósettinu sat meira að segja fyrir aftan mig á bekknum á útskriftinni,“ segir Hjálmar. Hann segir barnið, sem nú er fullorðinn maður, og móður þess hafa rámað í söguna, en að drengurinn hafi þó ekki verið nema tveggja ára þegar atvikið átti sér stað.

Klósettsagan segir frá því er Hjálmar skreið ásamt ónefndum félaga sínum inn um lagnagöng, sem eru um 60 x 60 sentimetrar að stærð og liggja undir endilangri skólabyggingunni. Þeir félagar voru ekki með vasaljós og þar sem þetta var fyrir tíma farsíma var skíman frá opi við vesturendann eina birtan sem við naut. Skal nú gripið niður í ræðu Hjálmars:

„Og þegar við teljum okkur vera að nálgast enda ganganna birtist smá skíma í gegnum hringlaga op á gangaveggnum. Við áttum okkur nú ekki alveg á þessu gati, en í gegnum það kemur nokkuð vegleg lögn. Þar sem við erum þarna að reyna að átta okkur á hvar við séum staddir og hvaðan lögnin komi heyrast talsverðir skruðningar í téðri lögn og félaga minum verður að orði stundarhátt: “Heyrðu, þetta er klósettið hjá Svenna kokki” – sem þá átti heima í íbúðinni inn af mötuneytinu. Félaganum lá hins vegar ef til vill helst til hátt rómur og handan við vegginn heyrist barnsrödd: “Pabbi! Klósettið er að tala við mig!”, hverju Svenni svarar að bragði lengra innan úr íbúðinni: “Hvaða vitleysa er þetta í þér barn!”

Þannig að: Svenni, ef þú átt ríflega tvítugan son eða dóttur sem trúir því að klósett geti talað, þá veistu a.m.k. núna hverjum þú getur kennt um!“

Hjálmar Gíslason lagði fram lífsspeki í þremur liðum í ræðu …
Hjálmar Gíslason lagði fram lífsspeki í þremur liðum í ræðu sinni. Ljósmynd/ hjalli.com

Við erum öll að „feikaða“

Þetta skemmtilega leyndarmál var þó ekki eitt þeirra sem Hjálmar á við með titli ræðu sinnar sem nú er orðin að bloggi og hefur verðast víða um samfélagsmiðla í dag. Klósettleyndarmálið tekur til menntaskólaáranna en hin leyndarmálin segir Hjálmar eiga við um lífið sjálft, og virðist það ekki síst innsæi Hjálmars sem fellur í kramið hjá netverjum.

Leyndarmálin eru þrjú en hér að neðan fara glefsur úr hugleiðingum Hjálmars um þau:

  • Fullorðnir eru ekki til
    „ Við – „fullorðna fólkið“ erum öll að „feikaða“, allan daginn. Við vitum ekkert hvað við erum að gera og lifum í sífelldum ótta um að einhver komist að því. Þetta verður alltaf augljósara eftir því sem við verðum eldri og í kringum fertugt er þetta orðið alveg augljóst.“
  • Samkennd er mikilvægasti hæfileiki 21. aldarinnar
    „Það er nefnilega ekki svo að einn hópur hafi endilega rétt fyrir sér og annar rangt, þeir nálgast málin einfaldlega á ólíkum forsendum og með ólíka forgangsröðun og eina leiðin að skynsamlegri niðurstöðu er að skilja sjónarhorn hinna og finna þá málamiðlun sem nýtist samfélaginu best sem heild.“
  • Heimurinn er betri en þið haldið
    „Fréttirnar birta okkur nefnilega mjög skakka mynd af heiminum. Þær segja okkur frá því sem er óvenjulegt, því sem hefur breyst síðan í gær, því sem passar inn í 24 tíma fréttakvörnina. Þær segja okkur hins vegar ekkert frá stórmerkilegum hlutum sem hafa staðið yfir í langan tíma, eða breytingum sem verða hægt og rólega.“

„Þetta er eitthvað sem ég fór að velta fyrir mér, hvað hefði ég viljað heyra sjálfur þegar ég var að útskrifast. Ég fór að velta þessu fyrir mér fyrir nokkrum vikum, setti niður nokkra punkta og þetta voru þeir þrír sem stóðu upp úr,“ segir Hjálmar. Hann segist hafa fengið góð viðbrögð, margir hafi gefið sig á tal við hann eftir ræðuhöldin í gær og að greininni sé greinilega deilt víða. Hann hyggst þó ekki leggja það fyrir sig að vera lífsspekigúrú.

„Ég hef ýmislegt annað við tímann að gera,“ segir hann og hlær. „En það er gaman að fólk hafi gaman að þessu.“

Ræðu Hjálmars í heild sinni má lesa hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert