Fá allir nafnið Jóhann

Þrastarungi reynir vængina. Þegar ungarnir koma til Söru kunna þeir …
Þrastarungi reynir vængina. Þegar ungarnir koma til Söru kunna þeir ekki að tína æti upp úr jörðinni, heldur aðeins að fá það ofan í sig. mbl.is/Ómar Óskarsson

Þeir eru litlir, krúttlegir og ósjálfbjarga, og bera allir nafnið Jóhann. Hverjir þá, kann einhver að spyrja? Jú, þrastarungarnir sem Kristbjörg Sara Thorarinsen dýralæknir tekur að sér og hjúkrar.

Sara, eins og hún er jafnan kölluð, starfar hjá Dýraspítalanum í Garðabæ og þangað leitar fólk með særða fugla, ekki síst á vorin. Oftast er um að ræða unga sem hafa dottið úr hreiðri sínu og endað sem bráð eða leikfang kattar og því miður er oft þannig komið fyrir þeim að sár eða brot verða til þess að þeim verður ekki bjargað.

Ef það er von, kemur dýralæknirinn hins vegar til bjargar.

„Ég er yfirleitt í því á vorin að taka fugla í fóstur og er búin að vera með nokkra í vor,“ segir Sara. „Ég gef þeim að borða í nokkra daga; þetta eru ungar sem eru ekki komnir með flugfjaðrir, og þjálfa þá aðeins upp. Þeir þurfa að læra að tína upp í sig orma af jörðnni því venjulega kemur maturinn allur að ofan þegar þeir eru í hreiðrunum,“ segir hún.

Sara er nýbúin að sleppa einum svartþresti og er nú með skógarþröst og stara í fóstri. Vegna þess hversu oft þarf að gefa þeim að éta, vaknar hún til þess á næturna og hefur þá hjá sér í vinnunni á daginn.

„Ég byrja svona 6–7 á morgnanna. Ég er með búr úti í garði sem ég smíðaði og þegar þeir eru orðnir aðeins stálpaðri þá set ég þá út. Annars þurfa þeir að fá að borða á klukkutíma til tveggja tíma fresti og þess vegna tek ég þá með mér í vinnuna og svo er ég með þá inni á nóttunni. Þeir eru bara inni á baðherbergi og svo byrja þeir að tísta snemma morguns og vilja fá að borða,“ segir Sara.

Fuglarnir una sér vel þrátt fyrir flutningana, enda í umsjá reynslumikils sérfræðings. Það hefur komið fyrir að aðrar tegundir hafa borist í hendur Söru en í fyrrasumar voru m.a. haldnar sundæfingar fyrir andarunga í baðkari heimilisfólks.

Stálpaður skógarþröstur.
Stálpaður skógarþröstur. mbl.is/Golli

Sú hefð hefur skapast að kalla alla þresti sem koma í fóstur Jóhann en það má rekja til fyrsta fuglsins sem Sara kom til bjargar og hlaut það ágæta nafn.

„Þegar ég var unglingur þá fann ég þröst sem var bara í hreiðrinu heima. Þrestir eru dálítið í því að fara of fljótt úr hreiðrunum þannig að þeir eru á jörðinni og mamman er þá að koma niður til þeirra og gefa þeim að borða. Það var búið að borða öll systkini þessa þrastar þannig að við tókum hann inn. Og svo þegar ég fór að vinna á spítalanum þá fóru fuglarnir að koma og ég tók þetta að mér,“ segir hún um upphaf fóstrustarfsins.

Þegar fuglarnir hafa náð heilsu sleppir Sara þeim út í náttúruna, fjarri mannabyggðum og þar sem vini þeirra er að finna. Hún segist ekki líta á fuglana sem gæludýr, heldur skjólstæðinga sem hún vill aðstoða við að komast aftur í sitt rétta umhverfi.

„Mér finnst ekki sorglegt að sleppa þeim, ég hef meiri áhyggjur af því hvort þeim gangi vel í lífinu,“ segir hún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert