Flugumferðarstjórar og Isavia funda

Yfirvinnubann Félags íslenskra flugumferðarstjóra hefur raskað flugumferð á Keflavíkurflugvelli töluvert.
Yfirvinnubann Félags íslenskra flugumferðarstjóra hefur raskað flugumferð á Keflavíkurflugvelli töluvert. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Fundur hefur verið boðaður í fyrramálið hjá ríkissáttasemjara í kjaradeilu Félags íslenskra flugumferðarstjóra og Isavia.

Ein og hálf vika er liðin frá síðasta fundi en ekki mega líða meira en tvær vikur á milli funda hjá ríkissáttasemjara.

„Það er vonandi að menn nái eitthvað betur saman,“ segir Guðni Sigurðsson, upplýsingafulltrúi Isavia.

Spurður hvort Isavia ætli að bera nýjar tillögur á borðið segir hann að reynt verði að komast betur að því hvað Félag íslenskra flugumferðarstjóra sé að hugsa. „Það er ekki komin nákvæm kröfugerð frá þeim enn þá,“ segir Guðni.

„Við leggjum mikla áherslu á SALEK-rammann sem hefur verið í gangi á almennum vinnumarkaði. Hann felur í sér í kringum 25% hækkun en það sem flugumferðarstjórar hafa talað um er töluvert yfir því. Þeir bera sig saman við laun flugumferðarstjóra erlendis, sem er eitthvað sem er ekkert endilega vaninn á íslenskum vinnumarkaði,“ bætir hann við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert