Gott fyrir austan en hvasst fyrir vestan

Búast má við hvassviðri og rigningu á vestanverðu landinu á …
Búast má við hvassviðri og rigningu á vestanverðu landinu á morgun. Morgunblaðið/Helgi Bjarnason

Búast má við björtu og fínu veðri á Austurlandi á morgun, en hvasst verður vestanlands og töluverð rigning, að sögn Þorsteins V. Jónssonar, veðurfræðings á vakt hjá Veðurstofu Íslands. Einnig má búast við einhverju hvassviðri og svolítilli vætu á suðvestanverðu landinu á morgun.

„Veðrið verður verst á Snæfellsnesi,“ segir Þorsteinn, og kveður hvassviðrið og rigninguna einnig ná inn á Vestfirði og Strandir. Þá megi búast við að áfram verði hvasst á norðvestanverðu landinu á miðvikudag. „Það verður síðan orðið ágætt á fimmtudag.“

Gott veður verður hins vegar fyrir austan, en þar verður léttskýjað og nokkuð hlýtt. Hitastig fer svo vaxandi eftir því sem líður á vikuna og segir Þorsteinn næstu helgi líta mjög vel út víða um land.

„Það verður hægviðri og hlýindi og hitastigið mun jafnvel ná 18–20 stigum inn til landsins,“ segir hann og kveður þó stutt kunna að vera í þokubakkana við sjávarsíðuna.

„Þetta veður gæti staðið eitthvað fram í næstu viku,“ segir Þorsteinn en bætir þó við að vera kunni að það kólni eitthvað eftir helgi. „Svo er bara komið sumar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert