Háloftin full af læknanemum

Sjö læknanemar af þeim ellefu sem fengu starf sem flugþjónar …
Sjö læknanemar af þeim ellefu sem fengu starf sem flugþjónar í sumar. F.v. Sigríður Þóra Birgisdóttir, Þórdís Þorkelsdóttir, Berta Guðrún Ólafsdóttir, Hrafn Hlíðdal Þorvaldsson, Helga Margrét Þorsteinsdóttir, Silja Ægisdóttir og Sara Margrét Guðnýjardóttir. Ljósmynd/ Siggi Anton

„Við þurfum að kunna öll öryggisatriði um borð vel og vera með skyndihjálpina á hreinu svo það hjálpar að vera með smá bakgrunn í því,“ segir Sara Margrét Guðnýjardóttir, læknanemi og flugfreyja hjá Icelandair, en hún er ein ellefu læknanema á öðru ári í HÍ sem fengu starf sem flugliðar hjá flugfélaginu í sumar.

Allir eru nemarnir í sama bekk, en ein bekkjarsystir þeirra hefur starfað sem flugfreyja hjá Icelandair síðustu tvö sumur. Þegar farið var að auglýsa eftir starfsfólki hjá flugfélaginu í haust ákvað hún að hvetja samnemendur sína til að sækja um og setti því auglýsinguna inn á lokaðan Facebook-hóp bekkjarins. Í kjölfarið sóttu þó nokkrir um, sem endaði með því að 11 úr bekknum fengu starf hjá flugfélaginu, en það er nánast fjórðungur bekkjarins.

Ekki sameiginleg ákvörðun

Sara Margrét var með sex samnemendum sínum í hóp á undirbúningsnámskeiði sem fram fór í vor og segir hún stemmninguna á námskeiðunum oft hafa verið skondna. „Við sátum oft öll í sömu sætaröð og áttum svo að kynna okkur og þá sagðist sá fyrsti vera á öðru ári í læknisfræði og svo fylgdi öll runan,“ segir hún og hlær.

Þá bætir hún við að fjölmargir hafi spurt hópinn hvort um sameiginlega ákvörðun hafi verið að ræða, en því hafi alltaf verið svarað neitandi.

Læknanám og flugliðastörf fari vel saman

Aðspurð segir Sara Margrét að læknanám og flugliðastörf fari mjög vel saman. Námið geti nýst vel ef beita þurfi skyndihjálp um borð, en vissulega séu aðrir nýliðar einnig vel staddir í þeim efnum eftir mikla þjálfun í undirbúningsnámskeiðum. Hún segir þó að fjölmargir hjúkrunarfræðingar starfi hjá Icelandair, svo ljóst sé að flugfélagið ráði oft inn fólk með heilbrigðisbakgrunn.

Þá segir hún að starfið muni eflaust koma að góðum notum fyrir námið. „Þetta er mjög góð reynsla fyrir mann. Maður hittir náttúrulega mjög margt fólk í flugvélinni og á í samskiptum við það, sem er mjög gott. Að vera flugfreyja er svo miklu meira en að gefa fólki kaffi,“ segir hún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert