Hjálpaði mörgum að tala um hlutina

Andrea Urður Hafsteinsdóttir.
Andrea Urður Hafsteinsdóttir. Ljósmynd/Andrea Urður Hafsteinsdóttir

Samfélagsverðlaun nemenda Menntaskólans í Reykjavík voru veitt í fyrsta sinn á nemendafögnuði skólans sem fór fram sl. laugardag. Verðlaunin eru veitt í nafni Andreu Urðar Hafsteinsdóttur og hlaut Andrea jafnframt verðlaunin fyrir vitundarvakningu um geðsjúkdóma innan Menntaskólans í Reykjavík á liðnu skólaári.

Andrea stóð fyrir vitundarvakningarviku um geðsjúkdóma í september í fyrra þar sem hún fékk fyrirlesara hvaðanæva að og talaði um reynslu sína af þunglyndi. Segir Andrea í samtali við mbl það hafa hjálpað mörgum að vita af einhverjum nálægt þeim sem glímdi við sjúkdóminn.

Í Menntaskólanum í Reykjavík er geðhjúkrunarfræðingur nemendum til aðstoðar. Andrea segir fjölda nemenda hafa leitað til hjúkrunarfræðingsins eftir að opnað var á umræðuna um sjúkdóminn innan skólans. „Einhverjir töluðu við mig og sögðust ekki hafa gert sér grein fyrir því að það væri eitthvað að fyrr en þau heyrðu fyrirlesturinn minn. Þau tengdu við margt sem ég sagði,” segir hún og bætir við að það sé mjög mikilvægt að hafa hjúkrunarfræðing í skólanum.

„Það eru fáir skólar með hjúkrunarfæðing en það er ekki eins að leita til námsráðgjafa og hjúkrunarfræðings,“ segir Andrea. Hún segir mikilvægt að geta leitað til hjúkrunarfræðings sem hefur innsýn í þessa hluti, eins og Andrea orðar það, og þekkir einkenni sjúkdómsins betur. Andreu finnst að allir skólar ættu að bjóða nemendum upp á hjúkrunarfræðing enda sé „himinn og haf“ á milli þess að fá þjónustu hjúkrunarfræðings og námsráðgjafa í þessum efnum.

Mikil orka fer í að halda veikindunum leyndum

Andrea var fengin til að fara með fyrirlestur í Verslunarskóla Íslands á síðasta ári. Þar greindi hún frá veikindum sínum í tengslum við sýningu á myndinni Heilabrot. „Ég hef heyrt að það hafi hjálpað til við að opna umræðuna og hjálpað mörgum,” segir hún.

Hún segir mjög mikilvægt að tala um geðsjúkdóma því það fari svo mikil orka í það að fela veikindin sem verði til þess að hægja á öllu bataferlinu. „Þú ert lengur að ná bata ef þú þarft að standa í því að fela veikindin þín,” segir hún.

Samfélagsverðlaunin verða veitt nemanda sem snertir við nemendum eða hefur jákvæð áhrif á skólalífið með einhverjum hætti. Andrea segist ótrúlega þakklát að sjá að hún hafi haft einhver áhrif. „Það er ómetanlegt,” segir hún.

Menntaskólinn í Reykjavík.
Menntaskólinn í Reykjavík. mbl.is/Sverrir Vilhelmsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert