Mansal í Vík: Farbann framlengt

Húsið í Vík í Mýrdal þar sem maðurinn á að …
Húsið í Vík í Mýrdal þar sem maðurinn á að hafa haldið konunum tveimur í kjallara.

Hæstiréttur staðfesti í dag farbann yfir karlmanni sem er grunaður um mansal í Vík í Mýrdal. Farbannið gildir til 22. júní næstkomandi.

Maðurinn var handtekinn í aðgerðum lögreglunnar á Suðurlandi um miðjan febrúarmánuð. Hann er grunaður um að hafa haldið fólki í vinnuþrælk­un en hann er eig­andi fyr­ir­tæk­is­ins Vonta In­ternati­onal. Við húsleit á heimili hans kom í ljós að þar voru staddar tvær erlendar konur. Þær sögðust hafa búið og unnið við að prjóna á heimili hans frá því þær komu til landsins 17. janúar á þessu ári og engin laun fengið fyrir vinnu sína.

Í greinargerð héraðssaksóknara, sem vísað er til í dómi Héraðsdóms Suðurlands, kemur fram að við rannsókn málsins hafi önnur konan borið á þá leið að hún hefði komið til landsins síðastliðið haust, en hafi þurft að fara úr landi eftir þriggja mánaða dvöl vegna dvalarleyfis. Hafi hún komið á ný í janúar og systir hennar hafi komið með henni, en hún hafi einnig verið á heimilinu þegar húsleit hafi verið gerð.

Ekki fengið laun greidd

Hafi konan sagt að hún hefði haldið áfram að starfa við saumaskap, þrif og eldamennsku fyrir hjónin á heimilinu. Hún hafi fengið greiddar 100.000 krónur til kaupa á flugfarseðlum fyrir hana og systur hennar þegar hún hafi farið úr landi. Þá hafi einhverjar greiðslur verið sendar til fjölskyldu hennar, en hún hafi engar greiðslur fengið.

Sú systranna sem síðar hafi komið hafi sagt að hún hefði dvalið á heimilinu við störf í þrjár vikur þegar lögregla hafi stöðvað starfsemina. Hún hafi ekki fengið laun greidd og aldrei fengið íslenska peninga í hendur frá því að hún hafi komið til landsins. Hafi þær borið um að hafa unnið reglulega við saumaskap inni á heimilinu. Þá hafi önnur þeirra jafnframt annast heimilisstörf. Systurnar hafi sagt að þær ættu enga peninga, enga bankareikninga eða greiðslukort. Það sem fram hafi komið við rannsókn málsins bendi til að systurnar hafi algerlega verið háðar sakborningi varðandi dvölina hér á landi.

Að lokinni rannsókn lögreglu var málið sent héraðssaksóknara og barst það embættinu 20. maí síðastliðinn. Segir í kröfunni að málið verði í framhaldinu yfirfarið með hliðsjón af því hvort ástæða sé til frekari rannsóknar, en annars verði tekin ákvörðun varðandi saksókn. Tekið er fram að meðferð málsins verði hraðað eins og unnt er.

Eiginkonan farið fram á skilnað

Í greinargerðinni kemur fram að byggt sé á því að maðurinn hafi verið búsettur hér á landi um nokkurra ára skeið. Hann hafi afar takmörkuð tengsl við Ísland ef frá sé talið að eiginkona hans og barn séu búsett hér á landi sem stendur. Fyrir liggi að eiginkonan hafi farið fram á skilnað við hann og þá sætir hann nú fimm mánaða nálgunarbanni gagnvart henni samkvæmt dómi Hæstaréttar.

Hæstiréttur bendir á í dómi sínum að maðurinn sé undir rökstuddum grun um að hafa framið brot sem fangelsisrefsing er lögð við. Hann sé erlendur ríkisborgari sem hefur afar takmörkuð tengsl við Ísland. Eru skilyrði laga til þess að hann sæti farbanni þannig uppfyllt. Verður því fallist á kröfu um farbann.

Dómur Hæstaréttar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert