Mars hefur ekki verið bjartari í áratug

Mynd sem Hubble-geimsjónaukinn tók af Mars 12. maí. Mars er …
Mynd sem Hubble-geimsjónaukinn tók af Mars 12. maí. Mars er bjartari í dag en hún hefur verið í áratug. Ljósmynd/NASA, ESA, the Hubble Heritage Team (STScI/AURA), J. Bell (ASU), og M. Wolff (Space Science Institute)

Reikistjarnan Mars er afar björt í dag og bjartari en hún hefur verið í um áratug. Í kvöld klukkan 01:00 verður hægt að bera Mars augum en það getur aftur á móti reynst erfitt þar sem stjarnan er staðsett afar neðarlega við sjóndeildarhringinn. „Hægt verður að greina hana um klukkan 01:00 í nótt þegar myrkrið er hvað mest hjá okkur en skilyrðin eru samt sem áður erfið,“ segir Sævar Helgi Bragason, eigandi Stjörnufræðivefjarins og formaður Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness.

Það sem gerir það að verkum að Mars er misáberandi frá jörðinni séð er það að sú braut sem Mars er á um sólina er sporöskjulaga og því er Mars mislangt frá jörðinni. „Fjarlægðin á milli jarðarinnar og Mars getur sveiflast úr 50 milljónum kílómetra og upp í 400 milljónir kílómetra. Á tuttugu og sex mánaða fresti mætast Mars og jörðin á braut sinni um sólina og það fer eftir því hvar á braut sinni Mars er miðað við jörðina hversu langt er á milli. Þegar fjarlægðin er sem minnst verður Mars björtust.“

Sævar Helgi Bragason formaður Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness og eigandi Stjörnufræðivefjarins.
Sævar Helgi Bragason formaður Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness og eigandi Stjörnufræðivefjarins. mbl.is/Golli

Sævar Helgi segir að nú sé fjarlægðin á milli jarðarinnar og Mars um 50 til 60 milljónir kílómetrar. Aftur á móti eru skilyrðin til að sjá reikistjörnuna ekki nægilega góð þar sem afar bjart er úti en Mars er einnig stödd í stjörnumerkinu Voginni sem sést sömuleiðis illa frá Íslandi.

Á 26 mánaða fresti er Mars eins björt og nú en reikistjarnan er misáberandi vegna fjarlægðar sinnar frá jörðu. Í október árið 2020 og í desember árið 2022 ætti reikistjarnan þó að sjást vel frá Íslandi þar sem að mun meira myrkur er þá en yfir sumarmánuðina.

„Fólk getur reynt að sjá Mars úr suðri um klukkan 01:00 í nótt. Reikistjarnan er rosalega lágt á lofti þannig byggingar og annað gætu haf áhrif á sjónlínuna. Það gæti verið gagnlegt að skanna himin með handsjónauka og þá ætti Mars að sjást vel,“ segir Sævar Helgi að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert