Vill meiri vinstri pólitík

Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri grænna.
Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri grænna. mbl.is/Eggert

Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, sagði í eldhúsdagsræðu sinni á Alþingi í kvöld að það vantaði meiri vinstri pólitík inn í þingsalinn. 

„Ef verkefni stjórnarandstöðu væri eingöngu að streitast gegn ríkjandi stjórnvöldum, þá höfum við auðvitað óskaríkisstjórn. Á fyrsta degi lækkaði hún veiðigjöldin, á öðrum degi slátraði hún auðlegðarskattinum og tók samhliða við að hrinda af stað einkavæðingu. Svo kom þetta koll af kolli,“ sagði Ögmundur.

Auðvitað vildum við helst að inn í þingsalinn væru aðeins borin mál sem við teldum þjóðþrifamál, sanngirnismál, mál sem við værum sátt við sem þjóðfélagsþegnar. Vissulega ætti það við um mörg verkefni Alþingis.

„Ég hef stundum sagt það í gamni og stundum í alvöru að ef úr heilaforriti sérhvers þingmanns væri tekin vitneskjan um hvaða flokki hann tilheyrði, þá yrði margt auðleystara, enda létu menn þá eigin dómgreind og kannski líka sanngirnina oftar ráða. Flokksböndin geta nefnilega oft verið hamlandi,“ bætti hann við.

En lífið væri ekki svo einfalt. Alls staðar væri tekist á um hagsmuni. Sumir vildu orða það svo að neysluhyggja tækist á við hagsmuni móður jarðar. Þessi hagsmunabarátta væri háð undir pólitískum merkimiða: peningafrjálshyggju og félagshyggju, hægristefnu og vinstristefnu.

Þetta væru ekki úreltar stefnur eins og sumir héldu sem helst vildu að stjórnmál væru bara spjall yfir kaffibolla.

Pólitík væri að uppistöðu til hagsmunabarátta. Annað væri viðfangsefni fagfólks. „Um leið og við vísum pólitískri umræðu út úr þessum sal eigum við ekki lengur erindi hingað,“ sagði Ögmundur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert