Bjóða upp á útivist fyrir unga fólkið

Tomasz og Vilborg munu sjá um ferðirnar í sumar.
Tomasz og Vilborg munu sjá um ferðirnar í sumar.

Vilborg Arna Gissurardóttir og Tomasz Þór Veruson munu í sumar leiða nýtt ævintýraprógram á vegum Ferðafélags unga fólksins fyrir fólk á aldrinum 18–25 ára. Fyrsti viðburður sumarsins verður á morgun þegar gengið verður á Mosfell.

Í sumar munu þau standa fyrir ýmiss konar ferðum víðs vegar um landið. Meðal annars verður farið í léttar gönguferðir í nágrenni við höfuðborgarsvæðið, hjólaferðir með leiðsögn fagmanna, náttúruböð í Reykjadal og lengri ferðir yfir Fimmvörðuháls og Laugaveginn þar sem endað er í Þórsmörk með tilheyrandi fjallastemningu.

Þau Vilborg og Tomasz ætla að fá með sér í lið ýmsa aðila sem standa fyrir uppákomum og skemmtilegum leikjum samhliða hefðbundinni dagskrá. Flestar ferðirnar verða á miðvikudögum og einstaka sinnum um helgar. Dagsferðirnar eru gjaldfrjálsar en sérstök skráning verður í lengri ferðirnar. 

„Ég myndi segja að ungt fólk leiti sífellt meira í áskoranir sem eru tengdar útivist á einn eða annan hátt. Sífellt fleiri halda á fjöll, skíða um fjöll og firninri eða fjallahjóla um landið,“ segir Vilborg Arna í samtali við mbl.is. 

Sem fyrr segir er fyrsta ferð sumarsins á Mosfell á morgun klukkan 19. Dagskrá má finna á Facebook-síðu Ferðafélags unga fólksins.

Dagskrá sumarsins er fjölbreytt.
Dagskrá sumarsins er fjölbreytt.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert