Hnigu niður með 20 metra millibili

Félagarnir Pétur Ívarsson og Brynjar Viggósson.
Félagarnir Pétur Ívarsson og Brynjar Viggósson. Ljósmynd/Facebook

„Ég skildi ekkert af hverju læknaliðið lagði mig í grasið, setti fæturna á mér upp í loft og dældi í mig vatni og kóki en ég lofaði að ég myndi ekki halda áfram,“ segir Pétur Ívarsson, hlaupari og verslunarstjóri Boss-búðarinnar í Kringlunni.

Pétur tók á dögunum þátt í Kaupmannahafnarmaraþoninu ásamt Brynjari Viggóssyni. Þegar félaganir voru búnir að hlaupa 34,8 kílómetra hnigu þeir aftur á móti báðir niður með 20 metra millibili. Aðstæður í Kaupmannahöfn voru erfiðar en í byrjun hlaupsins var hitinn um 20°C en fór upp í 27°C þegar félögunum var kippt úr brautinni.

Fóru of hratt miðað við aðstæður 

„Þetta gerist af því að við fórum of hratt miðað við aðstæður.“ Markmið þeirra Péturs og Brynjars var að ná að klára hlaupið á undir þremur klukkustundum en besti tími Péturs hingað til er 03:0028 og Brynjars 03:01. „Það sem hefði verið skynsamlegast hjá okkur, þar sem við erum búnir að æfa svo lengi saman, hefði verið að byrja saman á meðalhraða 4,14 og passa svo hvor upp á annan í hlaupinu eins og við erum í raun og veru búnir að vera að gera allt æfingaprógrammið. Þess í stað fórum við hvor í sínu lagi og höfðum ekkert nema vitleysuna í sjálfum okkur til að stóla á.“

Pétur lá í grasinu í um fjörutíu mínútur og jafnaði …
Pétur lá í grasinu í um fjörutíu mínútur og jafnaði sig, gekk svo á kaffihús og fékk sér croissant og djús. Ljósmynd/Facebook

Á þeim tíma er Pétur hneig niður var hann enn á nægilega góðum meðalhraða til þess að ná að klára hlaupið á undir þremur klukkustundum. „Ég lá í grasinu í um fjörutíu mínútur til að jafna mig, fór svo á kaffihús og náði mér í croissant og djús og labbaði í mark en þá var tíminn 03.50.“

„My name is Elvis“

Brynjar lenti aftur á móti uppi á spítala og mundi ekki hvert nafn sitt væri. Hann var þó fljótur að jafna sig þegar upp á spítala kom að sögn Péturs. Í færslu sem Brynjar deildi á facebooksíðu sinni á dögunum segir hann:

„Síðan gerðist það í vikunni að dönsk kona hafði samband við mig í gegnum FB/Messenger og sagðist hafa verið í „móttökunefndinni“ þegar ég „hrundi“, já og tók líka á móti Pétri, sem sagt nóg að gera hjá þessari „ljósmóður“! Sú danska var ein af þeim borgurum sem spurðu mig stöðugt og ítrekað hvað ég héti og annarra slíkra grunnatriðaspurninga. Og, einhvern veginn var maður ekki með fulle fem eða eigum við ekki að gefa þeirri dönsku orðið … „after we asked you several times about your name then you finally answered: My name is Elvis!“

Pétur segir Kaupmannahafnarmarþonið sitt uppáhalds maraþon.
Pétur segir Kaupmannahafnarmarþonið sitt uppáhalds maraþon. mbl.is/Ómar Óskarsson

Stefnan sett á Frankfurt í október 

Framundan hjá þeim félögum er að ná að klára að hlaupa maraþon á undir þremur klukkustundum. „Mig dreymir um að fara í þessu dýru hlaup í New York og Boston en ég tími því ekki á meðan að ég er enn að setja tímapressu á mig,“ segir Pétur. Nú er stefnan sett á maraþon í Frankfurt hinn 30. október. „Þá er orðið töluvert kaldara í veðri og maður getur slakað á út júní, tekið EM í bjór og nokkur sultuhlaup inn á milli. Síðan fer allt á fullt í júlí.“

Þetta var í sjöunda skiptið sem Pétur tók þátt í Kaupmannahafnarmaraþoninu en hann hefur einnig hlaupið í Reykjavík, Frankfurt og Berlín. „Mér finnst hlaupið í Kaupmannahöfn langskemmtilegast. Það er erfitt að ná góðum tíma á brautinni því að hún er svo hlykkjótt en að sama skapi er þetta besta brautin fyrir fólk til að hlaupa sitt fyrsta maraþon einmitt af því að hún er svo hlykkjótt og maður er alltaf að klára litla veggi, hún er auðveld fyrir hausinn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert