Nánast öruggt mál að gengið verður til kosninga í haust

Gengið er út frá því að þingkosningar fari fram í …
Gengið er út frá því að þingkosningar fari fram í október í haust. mbl.is/Styrmir Kari

Hvað sem líður opinberum yfirlýsingum þingmanna, stjórnarliða jafnt sem stjórnarandstæðinga, um að kjósa beri til Alþingis sem fyrst og eigi síðar en í október í haust, virðist sannfæringin á bak við slíkar yfirlýsingar í ákveðnum tilvikum vera takmörkuð.

Vantrú þingmanna á að Alþingi nái fyrir haustið að afgreiða þann fjölda þingmála sem komu fram á lista ríkisstjórnarinnar, sem afgreiða beri áður en boðað verði til kosninga, virðist vera töluvert útbreidd.

Samkvæmt lista um þingmál sem forsætisráðuneytið birti þann 19. apríl sl. sem klára beri á vor- og sumarþingi eru málin 76. Þar af eru frumvörp til laga 48 talsins. Önnur mál eru þingsályktunartillögur, endurskoðun ákveðinna laga og skýrslur ráðherra.

Listinn mun styttast

Reyndar mun vart nokkur stjórnarþingmaður, nema einhverjir framsóknarþingmenn, gera sér í hugarlund að þessi stóri listi þingmála verði afgreiddur, né að krafa verði gerð um það. Miklu frekar virðist líklegt að þingmenn stjórnarflokkanna muni sammælast um mun styttri lista þingmála, sem leggja beri áherslu á að ná að afgreiða fyrir 2. september nk. og þá sé brýnt í þeim efnum að leita eins breiðrar samstöðu og hægt er á Alþingi um afgreiðslu málanna. Marka má vilja stjórnarþingmanna til þess að leita eftir samvinnu við stjórnarandstöðuna um afgreiðslu mála.

Efasemdir framsóknarmanna

Ef marka má samtöl blaðamanns við þingmenn undanfarna daga ríkir ákaflega lítil sannfæring meðal meirihluta þingmanna Framsóknarflokksins um ágæti haustkosninga, og ákveðnir þingmenn flokksins hafa haldið því fram að ákveðnir þingmenn Samfylkingar og Bjartrar framtíðar, sem tala um nauðsyn þess að kjósa beri sem fyrst, séu að tala sér þvert um geð, einfaldlega vegna þess að þeir telji að slíkar yfirlýsingar falli í kramið meðal almennings.

Staðreyndin sé hins vegar sú að aðeins Vinstri hreyfingin – grænt framboð og Píratar séu undir það búin að fara í haustkosningar af stjórnarandstöðuflokkunum. VG sé á góðri siglingu og hafi þannig flokksapparat að flokkurinn geti farið í kosningar með skömmum fyrirvara. Píratar séu enn með góða stöðu, þótt fylgi þeirra hafi vissulega dalað samkvæmt skoðanakönnunum að undanförnu. Flokkurinn sé kominn vel á veg með kosningaundirbúning og prófkjör standi fyrir dyrum hjá flokknum í öllum kjördæmum, að því er fram kemur í fréttaskýringu um kosningahorfur í Morgunblaðinu í dag.

Gengið er út frá því að þingkosningar fari fram í …
Gengið er út frá því að þingkosningar fari fram í október í haust. mbl.is/Styrmir Kári
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert