Nauðsynlegt viðhald á fjölfarinni brúnni

Hlynur Rafn Rafnsson og Sigurður Hallur Sigurðsson við störf á …
Hlynur Rafn Rafnsson og Sigurður Hallur Sigurðsson við störf á Borgarfjarðarbrúnni á dögunum. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Unnið er þessa dagana að endurbótum á Borgarfjarðarbrú, þar sem gólf hennar á 80 metra kafla er endurnýjað. Steypan er brotin niður um 8-10 sentimeta, þar er járn lagt í og svo steypt að nýju með sérstyrktri blöndu.

„Þetta er nauðsynlegt viðhald á fjölfarinni brúnni, sem hefur reynst afskaplega vel á þeim fjörutíu árum sem eru síðan hún var tekin í gagnið,“ segir Sigurður Hallur Sigurðsson verkstjóri brúarvinnuflokksins sem hefur þetta verkefni með höndum.

Endurbætur á brúnni hafa staðið lengi yfir. Byrjað var á lagfæringum á gólfinu haustið 2012. Alls er brúin 520 metra löng og höfin eru 13, og hvert þeirra 40 metra langt.

„Eftir úthald þessa árs eigum við fjögur höf eftir og ætli við hespum þessu ekki öllu af á næsta ári,“ segir Sigurður Hallur sem lýsir brúarbótunum sem þolinmæðisverki. Að mörgu sé líka að hyggja, með tilliti til umferðarstjórnar. Tvö höf eru tekin í einu og þá er aðeins önnur akreinin opin, hvor í sína áttina um það bil eina mínútu í senn, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.

„Einstaka ökumenn láta þetta pirra sig, en langflestir þeirra taka þessu af stakri ró. Annars stefnum við að því að verkinu hér ljúki 20. júní, það er áður en landinn flykkist í sumarfrí og út á land,“ segir brúarsmiðurinn.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert