Ósammála meirihluta nefndarinnar

Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra.
Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra sagðist á Alþingi í dag ekki vera sammála meirihluta efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis sem leggur til að ekki verði fallið frá heimildum um tilfærslu í samsköttun hjóna.

„Ég get bara sagt að tillagan mun ekki fara í gegn á þessum tímapunkti. Annaðhvort verður að leggjast betur yfir hana í nefndinni fyrir haustið, finna betri rök eða tekjumöguleika á móti,“ sagði forsætisráðherra í dag.

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, spurði forsætisráðherra um skoðun hans á áliti meirihluta efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis. Meirihlutinn styður ekki tillögu í skattafrumvarpi Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra um að fallið verði frá samsköttun hjóna. Árni Páll sagði það kosta 3,6 milljarða króna og nýtast fyrst og fremst tekjuhæsta fólkinu í landinu.

Í frumvarpi Bjarna er jafnframt lagt til að tryggingagjald verði lækkað.

„Hvernig getur ríkisstjórnin fallist á að svona sé gengið fram af hálfu stjórnarmeirihlutans? Ég bið hæstvirtan forsætisráðherra þess lengstra orða að koma nú með skörulega yfirlýsingu þess efnis að hann standi ekki með stjórnarmeirihlutanum í efnahags- og viðskiptanefnd að þessari arfavitlausu tillögu,“ sagði Árni Páll.

Forsætisráðherra sagði niðurstöðu meirihluta nefndarinnar hafa komið sér á óvart.

„Hún gerir það að verkum að við þurfum þá að fara yfir það hvernig tryggja eigi 3,5 milljarða í tekjur, hvort það eigi þá að gera með því að hækka skatthlutfall í efra hlutfalli til móts við það,“ sagði hann. Tillaga ríkisstjórnarinnar hefði verið til þess að skapa tekjur og hamla gegn þenslu hjá þeim sem mest hefðu.

Fara þurfi betur yfir málið áður en fjárlög verði samþykkt næsta haust. „Rökin fyrir þessari breytingu eru ekki nægilega góð að mínu mati til þess að ég geti fallist á þau, ekki frekar en háttvirtur þingmaður.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert