Reynt að koma hreyfingu á málið

Frá fundinum í dag.
Frá fundinum í dag. mbl.is/Árni Sæberg

„Við höfum óskað eftir ákveðnum gögnum frá Isavia sem við munum skoða og væntanlega reyna að koma með eitthvað útspil á móti,“ segir Sigurjón Jónasson, formaður Félags íslenskra flugumferðarstjóra, í samtali við mbl.is en fundað var í kjaradeilu félagsins við Isavia í húsakynnum ríkissáttasemjara í dag. Fundurinn hófst klukkan 11 og lauk um tvöleytið. Ákveðið var að fundað yrði aftur á föstudaginn.

„Það er verið að reyna að halda þessu á hreyfingu,“ segir Sigurjón en boðað var til fundarins í dag af ríkissáttasemjara en lítið sem ekkert hafði gerst í kjaradeilunni í eina og hálfa viku þar á undan. „Við ræddum kannski ekki beint innihald samnings á þessu fundi. Meira hvernig við sæjum framhaldið fyrir okkur og reyna að koma þessu aftur af stað. Þetta er svona tilraun til þess að koma málinu á hreyfingu aftur. Það verður fundað aftur á föstudaginn og vonandi gengur það bara vel.“

Sigurjón var á leið út á Keflavíkurflugvöll þegar blaðamaður náði tali af honum en hann var að sækja formenn félaga flugumferðarstjóra á hinum Norðurlöndunum. Þaðan verður farið í Bláa lónið og ritað undir samstarfssamning. Tilgangurinn er meðal annars að geta brugðist við ef farið verður út í það að flytja inn erlent vinnuafl til þess að gegna störfum íslenskra flugumferðarstjóra á lægri töxtum. Einnig stendur til að félag breskra flugumferðarstjóra verði aðili að samningnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert