„Sá eini sem ekki fer listaveginn í lífinu“

Ljósmynd/Úr einkasafni

Ísak Valsson er dúx Verzlunarskóla Íslands með einkunnina 9,7 og hlaut verðlaun fyrir góðan námsárangur í íslensku, stærðfræði og eðlisfræði við útskriftina. Ísak var staddur á Magaluf á Mallorca í útskriftarferð ásamt samstúdentum sínum þegar blaðamaður náði af honum tali.

Dúxinn er þó ekki kominn í algjört frí frá námi, þar sem hann mun keppa með liði Íslands á Ólympíuleikunum í eðlisfræði í Zürich í Sviss í júlí, en hann útskrifaðist af eðlisfræðisviði náttúrufræðibrautar. Því næst tekur vinna við og svo þriggja mánaða Asíureisa með vinunum.

Kemur úr mikilli leikhúsfjölskyldu

„Allir sex í fjölskyldunni minni vinna í Borgarleikhúsinu nema ég. Sem sagt móðir mín sem leikmyndahöfundur, pabbi sem leikari, eldri systir mín sem ljósamaður og hún rappaði líka í Njálu, yngri bróðir minn, Grettir, sem leikari og yngri systir mín, Gríma, sem leikkona. Yngri systkinin eru eins og er að æfa fyrir Bláa hnöttinn sem verður sýndur á næsta leikári. Ég er sá eini sem er ekki að fara listaveginn í lífinu.“

Faðir hans er Valur Freyr Einarsson, en hann komst ekki í útskriftarveisluna, heldur sendi syninum kveðju á myndbandi. „Pabbi minn, Valur Freyr, er leikari og hann og bróðir minn gerðu myndband í sameiningu og sendu mér úr leikhúsinu því pabbi komst ekki. Hann var að sýna Mamma Mia á meðan útskriftarveislan var. Það voru kveðjur frá fullt af leikurum og svo voru þau að syngja fyrir mig. Þau voru búin að breyta einu lagi úr sýningunni aðeins.“

Móðir Ísaks er Ilmur Stefánsdóttir, myndlistarmaður og leikmyndahönnuður en hún hefur hannað ýmsar leikmyndir og búninga í Þjóðleikhúsinu, Borgarleikhúsinu og víðar.

Sjálfur tók Ísak þátt í nemendamótssýningu Verzlunarskólans, sem að þessu sinni var Moulin Rogue, og segist hafa gaman af leiklist, þó að mikil vinna hafi verið að sameina námið og leiklistina. „Jú, það var alveg erfitt. Nemó-leikritið er alveg allan daginn, alla daga fram að sýningu. Á þeim tíma var ég alveg duglegur, ég mætti náttúrulega í skólann og reyndi að vinna mikið og vel í skólanum, því ég gat ekkert gert heima.“

Söngurinn heillar þó frekar en leiklistin, segir Ísak, enda hafi hann meira sungið og dansað í leikritinu. Hann stefnir hins vegar ekki á að starfa við leiklist í framtíðinni, þó að hann segir líklegt að söngnám verði eitt af áhugamálum sínum, heldur ætlar hann í véla- eða rafmagnsverkfræði í Háskóla Íslands þegar hann hefur nám á ný.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert