Sagði lögreglunni að koma sér í burtu

Myndin er úr safni.
Myndin er úr safni. mbl.is/Styrmir Kári

Lögreglan þurfti að stjórna umferð eftir Kringlumýrarbraut og Miklubraut á sjöunda tímanum í dag til þess að auðvelda sjúkraflutningamönnum leið sína með alvarlega veikan mann um borð í sjúkrabifreið. Þurfti hann að komast sem allra fyrst á sjúkrahús vegna veikinda sinna. 

Í sérstakri tilkynningu frá lögreglunni segir að lögregluþjónar hafi orðið vitni að því, sér til mikillar furðu, þegar ökumaður einn sá sig knúinn til þess að lýsa furðu sinni á þessari hegðun lögreglu að tefja för hans.

Þegar honum var gerð grein fyrir ástæðu lokunarinnar, sem varði aðeins í nokkrar mínútur, fannst manninum lítið til koma, enda varðaði hann ekkert um líðan annarra, eins og segir í tilkynningunni.

Lauk samtalinu með þeim hætti að hann bað lögregluna vinsamlegast um að koma sér í burtu.

„Lögreglu fannst þessi hegðun ekki til framdráttar hjá viðkomandi enda var líf einstaklings í hættu. Lögregla hvetur fólk til að sýna skilning og samkennd í tilvikum sem þessum og öðrum, enda getur oft mikið legið við, nokkurra mínútuna bið getur vart sakað,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert