Snæfríður sér fegurð í því dimma og drungalega

Snæfríður kann vel að meta þungarokk og stíll hennar ber …
Snæfríður kann vel að meta þungarokk og stíll hennar ber vitni um það. mbl.is/Styrmir Kári

Hún segist vorkenna foreldrum sínum, því hún setur hræ af dýrum sem hún finnur í frystinn hjá þeim. Hún er heilluð af fegurð dauðra dýra og notar þau sem myndefni en hún hefur ástríðu fyrir ljósmyndun. Snæfríði Jónsdóttur er margt til lista lagt, hún hefur áhuga á þungarokki, er hestakona og sækir í víðáttuna í sveitinni.

Ég málaði mikið og teiknaði þegar ég var lítil, kannski vegna þess að mamma mín, Gunnur Sif Sigurgeirsdóttir, er myndlistarkona og pappír og litir voru hluti af heimilinu. Þannig vaknaði áhugi minn á því myndræna mjög snemma en á táningsaldri tók ég upp myndavélina og byrjaði á því að mynda hundana okkar. Mamma tók eftir að ég var með glöggt auga í þessum myndatökum og foreldrar mínir gáfu mér flotta myndavél í fermingargjöf og ljósmyndanámskeið með. Þetta hefur þróast hægt og rólega hjá mér, ég hef prófað allskonar stíla og nálgun með myndavélina. Ég er svo heppin að foreldrar mínir og aðrir nánir eru mjög áhugasamir um það sem ég er að gera og þau hvetja mig óspart,“ segir Snæfríður Jónsdóttir sem hefur vakið athygli fyrir frumlegar ljósmyndir sem yfir ríkir sérstakt andrúmsloft.

Listakonur á Englandi

Þegar Snæfríður var 17 ára flutti hún í eitt ár út til Englands með Emblu frænku sinni, en hún er keramikhönnuður og var þá að ljúka námi þar.

„Ég skráði mig í skóla og fékk að taka ljósmyndaáfanga, þar lærði ég heilmikið og ég var með góðan kennara sem opnaði huga minn fyrir því að horfa á list og pæla í henni. Ég bjó á Norður-Englandi og það var stutt að fara til Glasgow og Edinborgar þar sem ég stundaði listasöfnin. Ég held að þetta ár hafi virkilega fengið mig til að hugsa út í það sem ég var að gera með ljósmyndun, áður hafði ég í raun bara verið að leika mér.

Það var líka frábært að búa með listakonu og fá að kynnast listakonunum vinkonum hennar, kynnast þeirra hugarheimi og aðferðum í listsköpun.“

Hrollvekjandi er fagurt

Snæfríður tók þátt í ljósmyndakeppni í Skinfaxa, blaði Menntaskólans í Reykjavík þar sem hún stundaði nám á fornmálabraut, og hún sigraði, fékk bæði fyrstu og þriðju verðlaun.

Hún gerði líka myndaseríu fyrir blað fornmáladeildarinnar þar sem hún vann út frá grísku goðsögninni um skógargyðjuna Daphne en faðir hennar breytti henni í tré til að forða henni frá guðinum Apollo sem varð fullákafur og ágengur í ást sinni til hennar.

„Ég hef séð mörg rómantísk verk byggð á þessari goðsögn, en mig langaði að nálgast þetta á annan hátt og sýna átakanlegri hlið á umbreytingunni. Mér finnst þetta mjög dimm saga, en mér finnst hið drungalega og dimma oft geta verið fallegt. Það sem er hrollvekjandi getur verið mjög fagurt.“

Ég fyllist af innblæstri þegar ég fer austur í sveitina mína

Snæfríður hefur margar hliðar, hún hefur mikið dálæti á þungarokki, er mikil hestakona og sveitakona. Nýjustu ljósmyndirnar hennar eru þær sem hún hefur tekið af dauðum dýrum, eins og hún orðar það sjálf.

„Ég rekst oft á hræ í sveitinni minni, á Höskuldsstað í Breiðdal, þar sem ég hef búið síðustu þrjú sumur hjá yndislegum hjónum, Maríu og Magna. Þar er víðfeðmt og dásamlegt. Ég sé líka fegurð í hræjunum sem ég finn. Því miður er alltaf verið að segja okkur að þau séu ógeðsleg, sem þau eru alls ekki. Að deyja er partur af lífinu og líkaminn brotnar niður eftir það. Mér finnst dauðinn heillandi viðfangsefni og ég legg mikla vinnu í myndirnar sem ég tek af hræjunum, rétt eins og öðru sem ég mynda. Ég hef mjög mikla ástríðu fyrir ljósmyndun og öll smáatriði, birta og dýpt skipta mig miklu máli.

Ég fyllist af innblæstri þegar ég fer austur í sveitina mína og ég elska að vera úti í náttúrunni. Ég á tvo klára fyrir austan og ég er ein í heiminum þegar ég ríð til fjalla. Ég elska sveitina og friðsældina, en mér finnst líka gaman að vera í stórborgum og skoða menningu og fara á tónleika og hitta áhugavert fólk.“

Ekki rómantískur refur

Snæfríður var einmitt í reiðtúr með vinum sínum fyrir austan á fallegu kvöldi þar sem þoka lá yfir öllu, þegar hún reið fram á dauðan hrafn með útbreidda vængi.

„Þetta var svo myndrænt og fallegt, hvernig hann lá, með fullkominn ham, fjaðrirnar ekkert tættar þó það væri búið að éta innan úr bringunni á honum og beinin stóðu út. Ég var alveg heilluð og sótti hann næsta dag og ég á hann enn, í frysti. Aumingja foreldrar mínir, ég fylli frystikistuna þeirra af hræjum, því ég fann líka tófuhræ sem ég hirti,“ segir Snæfríður og hlær, en hún notaði hræin af krumma og tófunni sem myndefni. „Refurinn er kannski ekki jafn rómantískur því hann er kominn lengra í rotnununarferlinu en hrafninn. En hann er samt svo fallegur í sínu niðurbroti. Hræ gefa manni gott tækifæri til að skoða dýrin, alveg inn að beini.“ Snæfríður segist ætla að læra almennilega á tæknilega hluta myndavélarinnar, svo hún geti framkvæmt allar sínar hugmyndir. „Ég er enn að finna mig í þessu og prófa mig áfram og gera tilraunir. Það kemur í ljós hvað framtíðin ber í skauti sér.“

Magni bóndi á Höskuldsstöðum tók að sér að halda á …
Magni bóndi á Höskuldsstöðum tók að sér að halda á hrafninum fyrir myndatöku Snæfríðar af hrafninum.
Systir Snæfríðar var módel í myndaseríu um skógardísina Daphne.
Systir Snæfríðar var módel í myndaseríu um skógardísina Daphne.
Tófuhræið sem Snæfríður fann í sveitinni sinni berar tennurnar.
Tófuhræið sem Snæfríður fann í sveitinni sinni berar tennurnar.
Myndin sem Snæfríður fékk fyrstu verðlaun fyrir í ljósmyndakeppni Skinnfaxa, …
Myndin sem Snæfríður fékk fyrstu verðlaun fyrir í ljósmyndakeppni Skinnfaxa, skólablaðs MR. Picasa
Myndin sem Snæfríður fékk þriðju verðlaun fyrir í ljósmyndakeppni Skinnfaxa, …
Myndin sem Snæfríður fékk þriðju verðlaun fyrir í ljósmyndakeppni Skinnfaxa, skólablaðs MR
Snæfríður lék sér með hrafnshræið fyrir myndatöku og fékk meðal …
Snæfríður lék sér með hrafnshræið fyrir myndatöku og fékk meðal annars út þessa mynd.
Ein af draumkenndumyndunum sem Snæfríður hefur tekið.
Ein af draumkenndumyndunum sem Snæfríður hefur tekið.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert