Tíðni krabbameina hærri á jarðhitasvæðum

Niðurstöður rannsóknarinnar voru þær að krabbameinstíðni er hærri á jarðhitasvæðum …
Niðurstöður rannsóknarinnar voru þær að krabbameinstíðni er hærri á jarðhitasvæðum en á volgum og köldum samanburðarsvæðum. mbl.is/RAX

Samband er milli tíðni krabbameina og lengdar búsetu í sveitarfélögum sem nota jarðhitavatn á Íslandi. Þetta kemur fram í rannsókn Aðalbjargar Kristbjörnsdóttur, doktorsnema í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands, Thors Aspelund, prófessors við læknadeild og Vilhjálms Rafnssonar, prófessors emeritus við læknadeild.

Undanfarin misseri hafa þau Aðalbjörg og Vilhjálmur rannsakað tengsl krabbameinstíðni og búsetu nærri hvera- og eldfjallasvæðum þar sem alls kyns efni losna úr jörðu eða frá hverum.

„Það sem kveikti hugmyndina að rannsókninni upphaflega var það að mér fannst ég sjá þetta í umhverfinu og fór þá að skoða hvað aðrir höfðu verið að gera erlendis. Þá sá ég að einstaklingar höfðu verið að skoða mögulegra tengingu krabbameina og búsetu á jarðhitasvæðum. Ég fór að velta þessu fyrir mér út frá mínu umhverfi en búið var að framkvæma rannsóknir á þessu á Ítalíu, Nýja-Sjálandi og í Portúgal,“ segir Aðalbjörg í samtali við mbl.is.

Mynd af eitilfrumu með krabbamein.
Mynd af eitilfrumu með krabbamein. Mynd/Wikipedia

Höfuðborgarsvæðið og Reykjanes ekki með í rannsókninni 

Markmið rannsóknarinnar var að kanna hvort lengd búsetu í sveitarfélögum á jarðhitasvæðum, þar sem íbúarnir hafa notað jarðhitavatn til hitunar, þvotta og baða, tengdist hættu á krabbameini. Höfuðborgarsvæðið og Reykjanes voru ekki með í rannsókninni en samkvæmt Krabbameinsskránni er krabbameinstíðni þar hærri en á landsbyggðinni.

Aðalbjörg segir niðurstöðurnar hafa komið á óvart að nokkru leyti en þær voru að krabbameinstíðni væri hærri á jarðhitasvæðum en á volgum og köldum samanburðarsvæðum. Svo virtist verið með flest krabbamein, svo sem krabbamein í briskirtli, brjóstum, blöðruhálskirtli, nýrum, eitlum og blóðmyndandi vef og eitilfrumuæxlum öðrum en Hodgkins-meinum ásamt grunnfrumuæxlum í húð.

Rannsakendur vita ekki hver orsökin er fyrir þessari háu krabbameinstíðni en í framhaldinu er fróðlegt að skoða efnainnihald jarðhitavatnsins og andrúmsloftsins á jarðhitasvæðunum til þess að kanna hvort þar megi finna þekkta eða nýja krabbameinsvalda. Ef krabbameinsvaldar finnast eða komist verðu að því hvað er þarna að verki þarf að leita leiða til forvarna. „Það er okkar von að við getum síðan fundið út hvað er að valda þessu,“ segir Aðalbjörg að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert