„Það eiga allir jafnmikinn séns“

Halldóra á hjólinu.
Halldóra á hjólinu. Mynd/Aðsend

„Við erum ekki margar konur sem erum að keppa. Þetta eru mestmegnis karlmenn,“ segir Halldóra Ósk Ólafsdóttir sem lenti í öðru sæti í götuspyrnu í flokki götuhjóla 800 cc og yfir á Akureyri um helgina.

Hún segist hafa prófað spyrnu í fyrsta skiptið síðasta sumar. Er þetta því annað sumarið sem hún keppir í greininni. Áhugi hennar á mótorhjólum hefur þó verið til staðar lengi. „Ég hef haft áhuga í svolítinn tíma. Ég fékk fyrst áhuga þegar ég var um 13–14 ára gömul. Síðan lét ég drauminn rætast árið 2011 og keypti mér fyrsta mótorhjólið.“

Sjá frétt mbl.is: Kona vann til verðlauna í götuspyrnu

Halldóra segir samfélagið í kringum spyrnuna vera skemmtilegt en skemmtilegra væri að fá fleiri konur í greinina. „Það hefur verið meira um konur fyrir norðan, þar er ein og ein kona sem er að prófa. Þar hefur önnur kona fyrir utan mig verið að keppa í þessu. Hér í bænum vorum við tvær í fyrra að keppa í greininni. Það er vonandi að þetta fari að breytast og fleiri konur að koma inn í þetta.

Adrenalínið heillar

Spurð hvað það sé sem heilli við íþróttina, stendur ekki á svarinu. „Adrenalínið og kickið. Það er spenna í þessum Svo er líka öruggara að vera að leika sér á braut á öruggu svæði. Það er mikil skemmtun í þessu og góður félagsskapur,“ segir Halldóra.

Götuspyrna er 200 metra löng keppni þar sem keppendur keppast við að komast leiðina sem hraðast úr kyrrstöðu. Einnig er til svokölluð hjólaspyrna sem er 100 metra löng og svo kvartmíla. Er alltaf keppt á lokuðum brautum. 

Keppendur í greininni eru að sögn Halldóru á bilinu 12–20. „Það eru sirka 12 fastir keppendur. Fyrir norðan vorum við um 20 í heildina að keppa. Í bænum erum við frá svona 12 upp í 16–18 keppendur. Það eru líka nokkrir aðrir keppendur, til dæmis sjómenn, sem geta bara tekið þátt í nokkrum keppnum. En við erum um 12 fastir keppendur í hverri keppni.“

Halldóra keppir sjálf á 1400 cc hjóli. „Ég keppi í flokki stærri götuhjóla. Til þess að keyra þessi hjól þarftu að hafa stóra mótorhjólaprófið og til þess að taka það próf þarftu að hafa náð vissum árum í keyrslu. Sautján ára einstaklingur sem tekur mótorhjólaprófið má ekki keyra þessi hjól.“

Þolinmæði lykillinn að velgengni

Fleira skiptir þó máli en stærð vélarinnar í keppninni. „Þetta er samspil á milli hjóls og ökumanns. Hvaða hjól sem er getur unnið eða tapað. Ég tapaði til dæmis fyrir 1000 cc hjóli í úrslitunum. Ég var of gróf á gjöfinni og fór bara í spól. Þú þarft að þekkja hjólið þitt upp á að vita hversu hratt þú getur tekið af stað til að ná sem mestu út úr því. Þolinmæðin lætur þig vera rólega í keppninni en samt aktíva þannig að þú getir tekið hratt af stað. Þú mátt ekki vera yfirspennt, þá koma klúðrin“ segir Halldóra. 

Þá skipta aðstæður miklu máli. Því hlýrra sem er í veðri, því meira grip er á brautinni. Sé hins vegar kalt í veðri, minnkar gripið og meiri líkur eru á spóli.

Hraðinn sem hjólin geta náð í götuspyrnu getur nálgast 200 km á klukkustund. „Það er misjafnt hvað þú nærð miklum hraða. Ég náði um 140–160 km hraða. Sá sem á metið á þessari braut, sem er reyndar kærastinn minn, hefur náð 192 km hraða,“ segir Halldóra.

Úrslitaeinvígi Halldóru við Guðjón Ragnarsson, sem bar sigur úr býtum, var æsispennandi og þurfti bráðabana til að knýja fram úrslit. „Ég vann fyrstu ferðina. Hann vann svo aðra keppnina því ég var of gróf á gjöfinni og lenti í spóli. Þar lenti ég aftur í spóli og hann vann,“ segir Halldóra.

Halldóra vill endilega fá fleiri konur í íþróttina. Hún segist halda að margar konur séu örlítið smeykar við að prófa. „Ég held að margar konur séu smeykar við þetta. Þær halda að karlarnir munu vinna þetta og geti allt mest og best. Þetta snýst samt bara um að byrja, taka þátt og ná æfingunni. Um leið og maður tekur þátt nær maður árangri. Við kvenmennirnir getum alveg gert eins og karlmennirnir. Konur eru ekkert færri en karlar á mótorhjólum en kannski örlítið smeykar við þetta og halda að þær geti ekki unnið. en það eiga allir jafnmikinn séns,“ segir Halldóra. 

Halldóra Ósk Ólafsdóttir.
Halldóra Ósk Ólafsdóttir. Mynd/Aðsend
Mynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert