Kærðu árás á Karim Askari

Fulltúrar lögreglu og sýslumanns voru við Ýmishúsið.
Fulltúrar lögreglu og sýslumanns voru við Ýmishúsið. mbl.is/Árni Sæberg

Stofnun múslima á Íslandi hefur kært árás á Karim Askari, framkvæmdastjóra stofnunarinnar, sem átti sér stað við útburð Menningarseturs múslima úr Ýmishúsinu við Skógarhlíð í dag. Þetta kemur fram í tilkynningu sem stofnunin sendi frá sér nú síðdegis. Útburðurinn var gerður að undangengnum úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur í síðasta mánuði.

Á fréttavef RÚV segir að karlmaður úr hópi sem var frá Menningarsetri múslima hafi ráðist á Karim með steypustyrktarjárni fyrir utan Ýmishúsið er útburðurinn átti sér stað. Tveir lögregluþjónar hafi verið staddir inni í moskunni þegar árásin varð, og hafi þeir hlaupið út sokkaleistunum og snúið manninn niður.

Í tilkynningu Stofnunar múslima á Íslandi segir að árásin hafi verið stórfelld og sérlega hættuleg og mikil mildi að ekki hafi farið verr. „Ekkert virðist hafa ráðið för árásarmannsins annað en hatur og heift, en fyrir snör og hraustleg viðbrögð lögregluþjóna á staðnum, og töluverða heppni, fór árásin ekki verr en raun bar vitni. Atvikið hefur verið kært, og er til meðferðar hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.“

„Stofnunin vill sérstaklega taka fram, að enginn sem að málinu kom tók afstöðu gegn íslam, enda stendur styrinn milli tveggja félaga, sem aðhyllast íslam. Embætti og fulltrúi sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu, fulltrúar lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, flutningamenn, lásasmiður og allir þeir sem kvaddir voru á vettvang umgengust muni og eigur Menningarsetursins af virðingu, sem og íslamska trú og menningu. Rík áhersla er lögð á, að aðgerðin var framkvæmd samkvæmt íslenskum lögum og var réttur beggja aðila, samkvæmt núverandi stöðu, virtur í hvívetna,“ segir í tilkynningu sem Stofnun múslima sendi frá sér.

Þá ítrekar stofnunin að markmið hennar sé að vinna að uppbyggingu íslamskrar trúar á Íslandi með íslensk lög að leiðarljósi. „Stofnunin hefur ekki, og mun aldrei, grípa til ólögmætra aðgerða í neinum tilgangi, né heldur mun hún skaða Ísland eða líf Íslendinga á neinn hátt. Jafnframt fordæmir Stofnunin allar aðgerðir og framkvæmdir, sem byggja á lögleysu samkvæmt íslenskum lögum.“

Þurfa að yfirgefa Ýmishúsið í dag

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert