Miðasala betri en nokkru sinni

Falleg hross á landsmót hestamanna 2012.
Falleg hross á landsmót hestamanna 2012. mbl.is/Styrmir Kári

„Við erum staðráðin í því að halda frábæran viðburð og taka vel á móti okkar gestum,“ segir Áskell Heiðar Ásgeirsson, framkvæmdastjóri Landsmóts hestamanna, sem fram fer að Hólum í Hjaltadal dagana 27. júní til 3. júlí nk.

Að sögn Áskels hefur sala á miðum gengið betur en nokkru sinni fyrr, en þegar hafa verið seldir yfir fjögur þúsund miðar. „Það er töluvert meira en verið hefur áður. Hvort að það sé vísbending um að Íslendingar séu að verða svona rosalega forsjálir og kaupa snemma eða hvort það ætli fleiri að koma vitum við ekki, en þetta eru allt saman góðar vísbendingar,“ segir hann.

Þá segir Áskell undirbúning ganga vel, og veður hafa verið frábært á svæðinu. Unnið hafi verið mikið í svæðinu, og völlurinn sé tilbúinn.

50 ár síðan Landsmót var síðast haldið á svæðinu

Landsmót var síðast haldið að Hólum árið 1966, eða fyrir sléttum 50 árum síðan. „Þetta er mjög skemmtilegt svæði og auðvitað svolítil tilraunastarfsemi að fara með þetta inn á svona nýtt svæði. Þó það hafi verið haldið mót þarna fyrir fimmtíu árum þá hjálpar það okkur nú ekki mikið núna,“ segir Áskell en bætir við að mikill spenningur sé hjá skipuleggjendum fyrir því að takast á við þetta verkefni.

Þá segir Áskell að haldin hafi verið fjölmörg ungmannafélagsmót og unglingalandsmót á Hólum svo mikil þekking og reynsla sé í samfélaginu á því að halda stóra viðburði. „En auðvitað þurfa allir að hjálpast að og það er bara mikil jákvæðni fyrir því,“ segir hann og heldur áfram:

„Auðvitað getur verið að einhver þurfi að bíða í umferð í nokkrar mínútur eða bíða eftir afgreiðslu í nokkrar mínútur en það er nú bara alls staðar þar sem svona mikill fjöldi safnast saman. Við kvíðum því ekkert.“

Úrtökumót er á svæðinu nú um helgina, en kynbótasýning var alla síðustu viku. „Ég heyri ekki annað en að fólki líki svæðið vel og allt gangi upp,“ segir Áskell. „Það eina sem við vonum núna er að við klárum ekki allt góða veðrið þegar að þessu kemur. Það er búið að vera æðislegt upp á síðkastið og vonandi heldur það áfram svoleiðis.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert