„Það skortir einungis viljann“

Dr. Jane Goodall með simpansanum Freud í Gombe þjóðgarðinum í …
Dr. Jane Goodall með simpansanum Freud í Gombe þjóðgarðinum í Tansaníu. Michael Neugebauer

„Stundum eru dýraverndunarsinnar sakaðir um að hugsa bara um dýr en ekki fólk. En málið er að maður þarf að láta sér annt um bæði menn og dýr. Og oft er mjög auðvelt að stöðva grimmd gegn dýrum – hún er oft hér um bil við þröskuldinn hjá manni og okkar verk er að gera eitthvað í því. Það er á hverjum einasta degi hægt að gera eitthvað,“ segir doktor Jane Goodall, einn frægasti dýra- og umhverfisverndunarsinni heims, sem heimsækir Ísland í fyrsta sinn í næstu viku.

Íslendingum gefst þá meðal annars tækifæri til að sjá Jane Goodall á opnum fyrirlestri í Háskólabíó, miðvikudaginn 15. júní kl. 17 en Jane er vön að ferðast allan ársins hring, 300 daga á ári, til að vekja jarðarbúa til meðvitundar um umhverfis- og dýravernd. 

Jane Goodall varð heimsfræg árið 1962 þegar National Geographic birti ljósmyndir af henni, 28 ára gamalli, þar sem hún átti í einstökum samskiptum við villta simpansa. Fékk umheimurinn þá að vita af því að í Afríkulandinu Tansaníu væri þessi unga breska kona að gera tímamótauppgötvanir á hegðun simpansa. Með þessum öpum hafði hún þá meira og minna dvalið, í þeirra náttúrulega umhverfi, í tvö ár – fylgst með hegðun þeirra og gert merkilegar uppgötvanir. Næstu ár og áratugi áttu eftir að verða til sjónvarpsþættir og kvikmyndir um hana og hennar líf sem og fjöldi bóka. Jane Goodall varð súperstjarna og er í dag meðal annars friðarfulltrúi Sameinuðu þjóðanna.


Jane Goodall dvaldist á þessum tíma og næstu áratugi meira og minna með simpönsunum í Gombe-skóglendinu í Tansaníu þar sem hún stofnaði svo rannsóknarsetrið Gombe Stream.
Í dag heimsækir hún rannsóknarstöðina tvisvar á ári og hún myndi vera þar mun oftar og lengur ef hættuástand ríkti ekki í umhverfismálum eins og hún segir sjálf. Hún verði að nýta tímann til að ferðast um heiminn og vekja fólk til meðvitundar um jörðina og þá hættu sem hún er í, sem og líf þeirra dýra og manna sem hana byggja.


„Við erum að sjá miklar breytingar verða í jarðríkinu: útrýmingu dýrategunda, eyðingu skóga, mengun á lofti og vatni og svo mætti áfram telja. Vandamálið er að þrátt fyrir að flestir geri sér grein fyrir þessu og um þetta sé fjallað í fjölmiðlum er fólk ráðþrota. Því líður eins og það litla sem það gæti hugsanlega gert skipti engu máli. Svo að í stað þess að gera eitthvað gerir það ekkert,“ segir Jane Goodall í viðtali sem birtist við hana í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins sem kemur út um helgina. 

Dr. Jane Goodall.
Dr. Jane Goodall. © The Jane Goodall Institute

Heldur Jane Goodall að Íslendingar geti breytt einhverju og að hverju ætti þjóð í norðri að vera að einbeita sér?

„Það sem Íslendingar ættu að leggja áherslu á er að skilja hvernig þeirra daglega líf hefur áhrif á gang mála á fjarlægum stöðum. Vörur sem fluttar eru til landsins – kemur barnaþrælkun eða umhverfisspjöll þar við sögu? Hugsið um hversu mikið tvö börn á ykkar heimili nota af auðlindum jarðar – það er kannski jafnmikið og 10 afrísk börn. Og það er hægt að safna peningum til að styrkja verndun jarðarinnar; umhverfisins, manna og dýra. Mikilvægast er að gera sér grein fyrir að manns eigin lífsmynstur hefur afleiðingar fyrir aðra í heiminum.“

Ríkir verða að slá af kröfum sínum

Jane er farin að undirbúa Íslandsferðina en dagskráin er pökkuð af fyrirlestrum og einnig ætlar hún að hitta ungt fólk. Hún reyni þó hvar sem hún kemur að upplifa smá af landinu. Hún hefur skoðað myndabækur um Ísland og rætt við fólk um Ísland og er spennt að koma. En hvað ætlar hún að segja við Íslendinga?
„Ég ætla að segja ykkur frá simpönsunum og hvernig þeir líkjast okkur og hvað aðgreinir okkur. Ég ætla að tala um hvernig við erum að eyðileggja jörðina okkar og hvað við getum gert til að stoppa það. Svo reyni ég að gera þetta líflegt með ýmsum forvitnilegum sögum.
Það sem veldur mér mestum áhyggjum í dag og eru stærstu vandamál okkar er fátækt, því hún verður til þess að fólk finnur ekki svigrúm til að spá í umhverfi sitt. Það kaupir ódýrt inn og spáir ekki í hvernig varan varð til. Það heggur tré því það er það sem þarf að gera til að lifa af.
Annað atriði er svo að reyna að sannfæra hina ríku um að slá af sínum kröfum – að heimta ekki svona stóran skerf af lífsgæðunum. Ég hef líka áhyggjur af gífurlegri fólksfjölgun. Niðurstaða alls þessa eru loftslagsbreytingar sem vofa yfir okkur og eru þegar farnar að hafa áhrif á okkar líf; maður sér það um allan heim. Við búum yfir þekkingu, tækni, við eigum peninga og við erum eldklár. Það skortir einungis viljann.“

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert