Hefði getað farið mun verr

Bíllinn hafnaði inni í garðinum.
Bíllinn hafnaði inni í garðinum. Ljósmynd/Sif Björnsdóttir

Ösp rifnaði upp með rótum og girðing brotnaði á þriggja metra kafla þegar sautján ára stúlka ók bíl inn í húsagarð í Setbergi í Hafnarfirði í nótt. Stúlkan var undir áhrifum áfengis. Hún slapp án teljandi meiðsla sem og þrjú ungmenni sem voru farþegar í bílnum. 

Húsið stendur við götuna Kvistaberg og vöknuðu íbúar við lætin í nótt. Sif Björnsdóttir, dóttir hjónanna sem þar búa, fjallaði um málið á Facebook-síðu sinni og birti myndir. Í samtali við mbl.is segist hún vilja leggja áherslu á mikilvægi þess að setjast aldrei ölvaður og/eða undir áhrifum fíkniefna undir stýri. 

Hún segir ljóst að bíllinn hafi verið á mikilli ferð þegar hann hafnaði inni í garðinum. Ösp rifnaði upp með rótum og trégirðing, sem fest er niður með steypu, brotnaði á þriggja metra kafla. Bíllinn endaði síðan inni í runna og telur Sif að þessar hindranir hafi forðað því að ekki fór verr, að bíllinn hafi ekki hafnað beint á húsinu. Þrjátíu kílómetra hámarkshraði er í götunni. 

Foreldrar Sifjar vöknuðu við lætin þegar bíllinn endaði inni í garðinum en tilkynnt var um málið til lögreglu skömmu fyrir klukkan eitt í nótt. 

Frétt mbl.is: Bíll hafnaði inni í garði

Ein ösp rifnaði upp með rótum.
Ein ösp rifnaði upp með rótum. Ljósmynd/Sif Björnsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert