Ráðherra fylgir tillögum um heildarafla

mbl.is/ Alfons Finnsson

Gunnar Bragi Sveinsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur tekið ákvörðun um heildarafla tiltekinna fisktegunda fyrir næsta fiskveiðiár, 2016-2017, eftir samráð við ríkisstjórn. Ráðherra ítrekaði nauðsyn þess við ríkisstjórn að stórauka þurfi fjármagn til hafrannsókna en ráðherra fylgir tillögum Hafrannsóknastofnunar um ráðlagðan heildarafla. 

„Ráðgjöf Hafrannsóknarstofnunar var viss vonbrigði miðað við væntingar. Við sjáum ákveðinn lúxusvanda á Íslandi vegna góðrar fiskveiðistefnu og þurfum að styrkja hafrannsóknir til þess að leita skýringa á því til dæmis hversvegna nokkrir árgangar þorsksins eru að léttast,“ sagði Gunnar Bragi Sveinsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

„Margir nytjastofna á Íslandsmiðum eru í ágætu jafnvægi og nýting þeirra hófleg, eins og segir í nýrri skýrslu Hafrannsóknastofnunarinnar. Veiðum úr mörgum mikilvægustu nytjastofnum á Íslandsmiðum er stýrt á grundvelli aflareglna sem hafa verið prófaðar af Alþjóðahafrannsóknaráðinu (ICES) og standast alþjóðleg varúðarsjónarmið,“ kemur fram í tilkynningu frá ráðuneyti. 

Aflareglurnar eiga að styrkja stöðu íslenskra sjávarafurða á alþjóðamarkaði, enda er vaxandi áhersla markaðsaðila erlendis á að selja sjávarafurðir sem vottaðar eru sem sjálfbærar.


Nýliðun í þorskstofni undanfarin ár hefur verið nokkuð undir meðallagi en stækkun stofnsins á undanförnum árum er talin bein afleiðing af minni sókn.

Hafrannsóknastofnun ráðleggur lægra aflamark í nokkrum fiskistofnum. Nýliðun margra hlýsjávarstofna hefur minnkað að undanförnu en ástæður fyrir þessari neikvæðu þróun í nýliðun margra stofna eru ekki þekktar, en líkast til tengist það breyttum umhverfisskilyrðum í hafinu við Ísland síðastliðin 10–15 ár.

Frétt mbl.is: Afla­mark þorsks verði aukið um 5 þús. tonn

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert