Þú skilar þá í fyrramálið!

Veigar Margeirsson.
Veigar Margeirsson. Rax / Ragnar Axelsson

Veigar Margeirsson tónskáld hefur í tæpa tvo áratugi unnið við að semja tónlist fyrir kvikmyndastiklur. Hann rekur nú fyrirtæki í Bandaríkjunum sem sérhæfir sig í þessu og meðal nýlegra verkefna má nefna Captain America: Civil War, Zoolander 2, The Imitation Game, Mad Max:Fury Road og Deadpool. 

Veigar byrjaði fyrir hreina tilviljun að semja tónlist af þessu tagi, eins og hann lýsir í samtali við Sunnudagsblað Morgunblaðsins um helgina.

„Einar Þorsteinsson, vinur minn og klippari í LA, hringdi í mig og sagðist mögulega geta útvegað mér verkefni. Það vantaði tónlist fyrir stiklu vegna kvikmyndarinnar Baby Boy eftir John Singleton. Á þessum tíma var ég alveg grænn; hafði ekki hugmynd um að sérstök tónlist væri samin fyrir stiklur í Hollywood. Hélt að menn notuðust bara við tónlist úr myndinni,“ útskýrir Veigar brosandi.

Svo því sé til haga haldið er stikla (e. trailer) stutt myndband sem gert er til að kynna og vekja athygli á væntanlegri kvikmynd.

Aðstandendur myndarinnar voru á höttunum eftir svonefndri stomp-tónlist, sem gæti kallast stapp-tónlist á íslensku, og spurðu Veigar hvort hann væri maðurinn í það verkefni.
„Það er sérgrein mín,“ svaraði Veigar án þess að hika. „Skrökvaði því auðvitað, þar sem ég vildi ekki missa af þessu tækifæri. Hélt þess utan að ég fengi í það minnsta viku frest til að skila tónlistinni og hefði þannig nægan tíma til að setja mig inn í stomp-tónlist.“
Öðru nær. „Stórkostlegt. Þú skilar þá klukkan níu í fyrramálið!“

Veigar kaldsvitnaði og brunaði heim í dauðans ofboði. „Ég hringdi út um allt eftir leiðbeiningum; vakti alla nóttina og tókst einhvern veginn að henda einhverju saman,“ rifjar hann upp brosandi.

Til að gera langa sögu stutta sló þessi frumraun Veigars í stomp-tónlist rækilega í gegn og var notuð í stiklunni vegna Baby Boy. Örlög hans voru ráðin.

Nánar er rætt við Veigar í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins en hann er nú fluttur heim til Íslands.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert