Forsetakosningar í skugga EM

Hjónin Marthia Palma og Matieo Glacomini búa í Feneyjum á …
Hjónin Marthia Palma og Matieo Glacomini búa í Feneyjum á Ítalíu en eru í vikufríi hér á landi. mbl.is/Kristín Edda Frímannsdóttir

„Allir leiðsögumennirnir okkar eru búnir að segja okkur mikið frá árangri Íslands á EM en enginn sagði okkur það að í dag væru forsetakosningar,“ segir Ítalinn Matieo Glacomini sem staddur er hér á landi í vikufríi ásamt eiginkonu sinni Marthia Palma.

Hjónin hafa fylgst með fréttum af Íslandi úti á Ítalíu af miklum áhuga og vissu því að forsetakosningar væru í vændum. Þau voru þó hissa þegar þau uppgötvuðu að kosningarnar væru í dag. „Þetta er svo ólíkt því sem við erum vön á Ítalíu. Þar eru löggan og herinn fyrir utan kjörstaði en hér er allt svo rólegt,“ segir Glacomini.

Hjónin eru afar hrifin af bæði landi og þjóð og eru búin að nýta vikuna í að ferðast um landið. „Maður verður ástfanginn af náttúrunni hérna um leið og maður sér hana,“ segir Glacomini. Þá segir hann Íslendinga afar glaðværa og skemmtilega. „Það eru margir sem vilja komast frá Ítalíu núna út af ástandinu þar. Hér er allt mikið rólegra, allt aðrir lifnaðarhættir og hugsunarhættir. Það eru alltaf allir brosandi og því er maður ekki vanur á Ítalíu,“ segir Glacomini að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert