Merkisdagur sem sýna á virðingu

Erna Kristinsdóttir, íbúi á Seltjarnarnesi, við Valhúsaskóla fyrr í dag.
Erna Kristinsdóttir, íbúi á Seltjarnarnesi, við Valhúsaskóla fyrr í dag. mbl.is/Kristín Edda Frímannsdóttir

„Mér finnst kjördagur merkilegur dagur í lífi okkar og við megum alls ekki hætta að kjósa. Unga fólkið á að nota kosningarétt sinn því það getur stjórnað með því að kjósa,“ segir Erna Kristinsdóttir, íbúi á Seltjarnarnesi. mbl.is ræddi við Ernu í Valhúsaskóla á Seltjarnarnesi rétt áður en hún gekk til kosninga.

„Það var mikið barist fyrir því að konur fengju kosningarétt. Það eru ekki nema rétt rúm hundrað ár síðan við fengum að kjósa og þá þurftum við að vera orðnar fertugar og giftar til að öðlast réttinn. Við konur megum alls ekki slugsa við að kjósa og verðum að halda uppi þessum rétti fyrir þær konur sem börðust fyrir okkur,“ segir Erna.

Erna vill að fólk sýni kjördegi ákveðna virðingu og klæði sig upp fyrir daginn. „Við eigum ekki að mæta í hversdagsfötunum. Þegar ég var að alast upp og foreldrar mínir þá var farið í sparifötin. Amma mín fór í peysufötum með skotthúfu á kjörstað,“ segir Erna.

Í dag ganga Íslendingar til kosninga.
Í dag ganga Íslendingar til kosninga. mbl.is/Golli

Erna er óvenjulítið spennt fyrir úrslitum þessara kosninga og segir dapurt að ekki hafi komið fram neinn frambjóðandi sem öll þjóðin gat safnast saman um. Þá finnst henni að ef mjótt er á munum verði að breyta stjórnarskrá þannig að kjósa þurfi á milli tveggja efstu frambjóðenda.„Ekki láta forseta verða kjörinn með einu eða tveimur atkvæðum.“

Að lokum hvetur Erna alla til að mæta á kjörstað og nýta atkvæði sitt. „Ég var í brúðkaupi til klukkan þrjú í nótt og hvatti allt unga fólkið þar til að fara í dag og kjósa.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert