Bretland þriðja hjólið í Evrópu

Eiríkur Bergmann stjórnmálafræðingur sér tækifæri fólgin í útgöngu Bretlands úr …
Eiríkur Bergmann stjórnmálafræðingur sér tækifæri fólgin í útgöngu Bretlands úr ESB. mbl.is/ Kristinn Ingvarsson

„Stjórnmál eru list hins mögulega, þessi staða sem upp er komin er það mögnuð að menn verða að finna nýjar leiðir til að takast á við niðurstöðuna,“ sagði stjórnmálafræðingurinn Eiríkur Bergmann í umræðuþættinum á Sprengisandi á Bylgjunni í dag. Hann ræddi Brexit-þjóðaratkvæðagreiðsluna í Bretlandi og þau áhrif sem ákvörðun Breta um að yfirgefa Evrópusambandið hefur í för með sér.

Eiríkur telur viðbrögð Skota vera einn áhugaverðasta þáttinn í málinu en þeir kusu einhuga með áframhaldandi veru í sambandinu. Eiríkur segir Skota þegar hafa hafist handa við að kanna stöðu Skotlands gagnvart sambandinu.

Þá líkti Eiríkur stjórninni í Evrópu við þriggja hjóla vagn þar sem Bretland er þriðja hjólið undir vagni Þjóðverja og Frakka. „Bretar gráta þurrum tárum að fara þaðan út,“ segir Eiríkur.

Eiríkur segir þó ákveðin tækifæri fólgin í brotthvarfi Breta frá sambandinu. Hann telur Ísland eiga minna erindi í ESB í kjölfar niðurstöðu Brexit-kosninganna en Ísland hafi tvö ósamrýmanleg markmið gagnvart sambandinu; að vera aðili innri markaðs sambandsins en á sama tíma ekki ganga í það. Aðild að Evrópusamstarfinu kemur betur út fyrir Íslendinga efnahagslega, en lýðræðislega segir Eiríkur stöðu Íslands gagnvart sambandinu óboðlega. Bretar hefðu aldrei tekið í mál þann lýðræðishalla sem Ísland þyrfti að þola, gangi það í sambandið.

Eiríkur sér fyrir sér möguleika á einhvers konar innri og ytri kjarna Evrópusamvinnunnar. „Bretar, Íslendingar og fleiri þjóðir sem ekki hafa áhuga á djúpu sambandi gætu myndað með sér ytri kjarna í nánu samstarfi við Evrópusambandið, þess vegna með því að gera einhvers konar „pakkadíl“ við Evrópusambandið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert