Englendingurinn styður Ísland

Árangur Íslands á EM hefur vakið athygli á Norðurlöndunum og …
Árangur Íslands á EM hefur vakið athygli á Norðurlöndunum og um allan heim. AFP

Norrænir fjölmiðlar eru byrjaðir að hita upp fyrir leik Íslands og Englands á EM í kvöld. Sænska ríkisútvarpið segir tölfræðina benda til íslensks sigurs en norska blaðið Verdens Gang tekur púlsinn á stemningunni í Reykjavík á forsíðu, þar á meðal Englendingi sem styður Ísland í kvöld.

Íslenska landsliðið heldur uppi heiðri Norðurlandanna í 16-liða úrslitunum í kvöld en Svíar duttu út í riðlakeppninni og hvorki Danir né Norðmenn komust á mótið. Því hafa margir Norðurlandabúar lagst á árar með Íslendingum á mótinu.

Aðalfrétt á forsíðu norska blaðsins Verdens Gang í hádeginu er um stemninguna á Íslandi fyrir leikinn undir fyrirsögninni „Þessi leikur er risastór“. Þar er meðal annars rætt við Englendinginn Alan Matthews sem er frá Grimsby en hefur búið á Íslandi um árabil. Hann segist ætla að halda með Íslandi í kvöld.

„Þetta er erfið staða fyrir mig. Vinir mínir á Englandi eru ekki ánægðir en ég ætla að sitja hér í bláum búningi og fagna þegar þeir skora,“ segir Alan við VG og telur landið verðskulda stuðning sinn.

Vöruflutningabílstjórinn Teitur Guðnason segir leikinn risavaxinn, ekki síst vegna sögu þorskastríðanna og víkingatímabilsins. Hann er að fara að keyra farm af humri þegar blaðamaður VG nær tali af honum.

„Hann er frekar líkur Wayne Rooney!“ segir Teitur um einn humarinn.

Sænska ríkisútvarpið vísar í umfjöllun sinni til þess að Lars Lagerbäck, þjálfari íslenska liðsins, hafi aldrei tapað kappleik gegn Englendingum í sex leikjum. Því bendi tölfræðin til sigurs Íslendinga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert