Enskur leigubílstjóri veðjar á Ísland

Simon Bentley og sönnun þess að hann hefur veðjað á …
Simon Bentley og sönnun þess að hann hefur veðjað á sigur Íslands. Ljósmynd/ Pétur Blöndal

Enski leigubílstjórinn Simon Bently hefur tröllatrú á íslenska karlalandsliðinu í fótbolta en hann hefur veðjað 10 pundum á sigur Íslands á Evrópumótinu. Fari svo að Ísland vinni græðir hann 1.250 pund á sigrinum. 

Pétur Blöndal, framkvæmdastjóri Samáls, var farþegi Simons í London liðna helgi en Simon varð heldur betur upprifinn þegar í ljós kom að Pétur var frá Íslandi. Greip þá Simon pappírsbleðil sem hann hafði á mælaborðinu, því til sönnunar að hann hefði veðjað á sigur Íslands á mótinu, og sýndi Pétri.

„Ég get ekki tapað,“ sagði Simon í samtali við mbl.is. Nokkuð langt er síðan Simon veðjaði á úrslitin en hann segist þá ekki hafa átt von á að Ísland og England mundu mætast í keppninni.

Sigurinn á Hollendingum sannfærandi

„Ég hef verið að fylgjast með því sem er í gangi í íslenska boltanum; fjárfestingin í góðum þjálfurum, innanhússvellir og viljastyrkurinn sem þeir hafa,“ segir Simon um hvernig það kom til að hann ákvað að veðja á Ísland.

Hann segist ekki oft veðja, en sigur Íslendinga á Hollendingum í undankeppninni hafi komið liðinu á kortið, þeir spili með hætti sem virkar í augnablikinu og hafi innanborðs unga og tæknilega góða leikmenn, „svo af hverju ekki?“ Það geri lífið meira spennandi að veðja á eitthvað sem öðrum þykir ólíklegt.

„Hjarta mitt segir að England vinni 2:1 en sál mín vonar að Ísland taki þetta 1:0,“ segir Simon um spá sína fyrir leikinn. Það verður mjótt á munum telur hann og bætir við að England vinni aldrei stórt í þessari stöðu. Simon ætlar þó að hvetja England í kvöld en kveðst líka verða ánægður fari svo að Ísland beri sigur úr býtum.

Simon er ekki aðeins áhugasamur um íslenskan fótbolta en hann er einnig mikill aðdáandi Bjarkar Guðmundsdóttur og hljómsveitarinnar Sigur Rósar. Hann starfaði í 22 ár sem umboðsmaður fyrir hljómsveitir, áður en hann gerðist leigubílstjóri, en hann kveðst áhugasamur að heimsækja Ísland og þá helst ef hann kemst á tónlistarhátíð í leiðinni. „Ég er enginn venjulegur leigubílstjóri,“ segir Sam að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert