Flugmiðar til Parísar rjúka upp í verði

mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Flugmiðar til Parísar um næstu helgi hafa rokið upp í verði í dag, samkvæmt verðkönnum Túrista.is. Ef íslenska landsliðið ber sigur úr býtum gegn Englandi í 16 liða úrslitum EM í knattspyrnu í kvöld mætir það því franska í París sunnudagskvöldið 3. júlí.

Túristi.is gerði verðsamanburð á fargjöldum til frönsku höfuðborgarinnar dagana í kringum 3. júlí.

Af samanburðinum má ráða að þeir sem bóka núna far til Parísar, í kringum leikinn á sunnudag, borga mun meira en þeir sem ruku til og pöntuðu flug í fyrradag. Þá var hægt að fá sæti á tæpar 22 þúsund krónur 2. til 5. júlí með flugfélaginu Transavia en sá miði kostar í dag 51.150 krónur.

Farið með flugfélaginu 2. til 4. júlí hefur hins vegar hækkað úr 24.646 krónum í 89.925 krónur. Er munurinn hátt í fjórfaldur.

Þá hafa lægstu fargjöld Icelandair og WOW air einnig hækkað verulega en Túristi segir að skrifa megi þessar miklu hækkanir á vongóða stuðningsmenn íslenska landsliðsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert