Kaupþingsmál í Hæstarétti í haust

Hreiðar Már Sigurðsson, fv. forstjóri Kaupþings, Ingólfur Helgason, fv. forstjóri …
Hreiðar Már Sigurðsson, fv. forstjóri Kaupþings, Ingólfur Helgason, fv. forstjóri Kaupþings á Íslandi, og Sigurður Einarsson, fv. stjórnarformaður bankans. mbl.is

Markaðsmisnotkunarmál Kaupþings verður dómtekið í Hæstarétti 9. september næstkomandi, en dómur í héraðsdómi var kveðinn upp í málinu fyrir einu ári og einum degi. Voru þá sjö fyrrverandi starfsmenn bankans fundnir sekir um markaðsmisnotkun og umboðssvik, en tveir fyrrverandi starfsmenn sýknaðir eða máli gegn þeim vísað frá dómi. Öllum dómunum var áfrýjað.

Þeir sem ákærðir voru í mál­inu voru Hreiðar Már Sig­urðsson, fyrr­ver­andi for­stjóri bank­ans, Sig­urður Ein­ars­son, fyrr­ver­andi stjórn­ar­formaður bank­ans, Magnús Guðmunds­son, fyrr­ver­andi for­stjóri Kaupþings í Lúx­em­borg, Ingólf­ur Helga­son, fyrr­ver­andi for­stjóri Kaupþings á Íslandi, Ein­ar Pálmi Sig­munds­son, fyrr­ver­andi for­stöðumaður eig­in viðskipta Kaupþings, Birn­ir Sær Björns­son og Pét­ur Krist­inn Guðmars­son, starfs­menn eig­in viðskipta, Bjarki Diego, fyrr­ver­andi fram­kvæmda­stjóri út­lána Kaupþings og Björk Þór­ar­ins­dótt­ir, fyrr­ver­andi lána­full­trúi í lána­nefnd bank­ans.

Björk var sýknuð í héraði. Nokkrum ákæruliðum gegn Magnúsi var vísað frá en hann sýknaður í öðrum liðum.

Frétt mbl.is: Sjö Kaupþingsmenn sakfelldir

Ingólf­ur var í málinu dæmd­ur í fjög­urra ára og sex mánaða fang­elsi og Bjarki fékk tveggja ára og sex mánaða fangelsisdóm. Hreiðar og Sigurður voru sakfelldir í málinu og bættist eins árs fangelsi við dóm Sigurðar sem hann hafði hlotið í Al-Thani-málinu. Hreiðari var ekki gerð frekari refsing en hann hafði hlotið í sama máli.

Birn­ir Sær og Pét­ur voru dæmd­ir í 18 mánaða skil­orðsbundið fang­elsi og Ein­ar fékk tveggja ára skil­orðsbund­inn fang­els­is­dóm.

Mbl.is fór nánar yfir þau atriði sem ákærðu voru dæmd eða sýknuð fyrir í þessari samantekt.

Í dómi héraðsdóms var komist að þeirri niðurstöðu „að í deild eig­in viðskipta í Kaupþingi hafi, á ákæru­tíma­bil­inu, verið stunduð stór­felld markaðsmis­notk­un með því að sett voru inn mörg kauptil­boð í hluta­bréf, eins og lýst var, og með því var rang­lega gefið til kynna að eft­ir­spurn væri eft­ir bréf­un­um.“

Birnir Sær Björnsson, Bjarki Diego, Einar Pálmi Sigmundsson og Pétur …
Birnir Sær Björnsson, Bjarki Diego, Einar Pálmi Sigmundsson og Pétur Kristinn Guðmarsson, fv. starfsmenn Kaupþings. mbl.is

Þá segir í dómnum að með því að hafa selt bréfin til félaga sem fengu lán að fullu frá bankanum til kaupanna hafi verið stunduð markaðsmisnotkun. „Áhætt­an var öll Kaupþings sem hafði ekki aðrar trygg­ing­ar en bréf í sjálfu sér. Sam­kvæmt þessu var hér um markaðsmis­notk­un að ræða,“ segir í dómnum.

Dæmdi héraðsdómur einnig að umboðssvik hefðu átt sér stað í tilfelli lánveitinga til tveggja félaganna sem bankinn lánaði vegna kaupanna.

Málið er gíf­ur­lega um­fangs­mikið og hef­ur verið reglu­lega í frétt­um frá því að ákæra í mál­inu var gef­in út í mars 2013. Þá kláraðist aðalmeðferðin eft­ir 5 vik­ur í dómsal, þar sem tæp­lega 60 vitni komu fyr­ir dóm­inn og öll þau níu sem eru ákærð í mál­inu. Málið er því rétti­lega orðið eitt af þeim flókn­ari og um­fangs­meiri sem hafa komið fyr­ir ís­lenska dóm­stóla.

Voru málsvarnarlaun í málinu einnig þau hæstu sem sést hafa, en í heild nam málsvarnarkostnaður í því 263 milljónum. Hlutur ákærðu var um 165 milljónir og ríkisins tæplega 100 milljónir. Er það rúmlega þrefalt hærri upphæð en var í Baugsmálinu, á föstu verðlagi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert