Lögregla: Engin hætta í Nice

Frönsk lögregla að störfum í Nice í Frakklandi.
Frönsk lögregla að störfum í Nice í Frakklandi. AFP

Engin hætta var á ferð í Lingost­ière-versl­un­ar­miðstöðinni í Nice í Frakklandi sem rýmd var eftir hádegi í dag. Þetta segir Tjörvi Einarsson, lögreglufulltrúi hjá Ríkislögreglustjóra, sem er staddur þar í landi vegna þátttöku íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu á EM.

Lögregla rýmdi verslunarmiðstöðina sem er skammt frá Stade de Nice-leikvanginum þar sem leikur Íslands og Englands fer fram í kvöld. Lögregla var með mikinn viðbúnað vegna grunsamlegs pakka sem fannst á staðnum. Alls þurftu um tvö þúsund manns að yfirgefa verslunarmiðstöðina.

„Það sem ég veit er að það fannst þarna einhver pakki og var kölluð til sprengjusveit til að kanna hann,“ segir Tjörvi í samtali við mbl.is. Hefur hann eftir lögreglu að um gabb (e. hoax) hafi verið að ræða og engin hætta hafi stafað af pakkanum.

Aðspurður segist hann ekki eiga von á því að aðgerðin, sem núna er lokið, hafi áhrif á leikinn á eftir eða svæðið í kringum hann. Ef til þess kemur, í dag eða aðra daga, verða upplýsingar um það birtar á Facebook og Twitter.

Frétt mbl.is: Verslunarmiðstöð rýmd í Nice

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert