Miðasalan eins á leikinn gegn Frökkum

Íslendingar þurfa að bíða í röð eftir miða á leikinn …
Íslendingar þurfa að bíða í röð eftir miða á leikinn gegn Frökkum. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Íslendingar munu mæta Frökkum í fjórðungsúrslitum Evrópumótsins á sunnudaginn, eftir glæsilegan sigur á Englendingum í kvöld. Leikurinn fer fram á þjóðarleikvangi Frakka, Stade de France, þar sem Íslendingar sigruðu Austurríkismenn í riðlakeppninni.

Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, á von á því að miðasalan fyrir leikinn verði með sama móti og fyrir leikinn gegn Englandi; allir geti keypt miða, óháð þjóðerni. Íslendingar sem ætla sér að mæta á völlinn, verða því að sætta sig við biðröð á heimasíðu UEFA á ný og vona það besta.

Stade de France tekur rúmlega 81.000 áhorfendur, en Allianz Riviera-leikvangurinn í Nice, sem leikið var á í kvöld, tekur einungis rúmlega 35.000. Íslendingar ættu því að eiga betri möguleika á að næla sér í miða á leikinn á sunnudag, en þó ber að hafa í huga að íslensku strákarnir munu etja kappi við gestgjafana og eftirspurnin eftir miðum því væntanlega gríðarleg.

Miðasalan fer sem áður fram á vefsíðu UEFA, en hana má finna hér. Miðaverðið hefur hækkað frá því í sextán liða úrslitunum, en sem fyrr eru fjórir verðflokkar. Miðarnir kosta nú 45, 85, 135 eða 195 evrur, eða um 6.200, 11.600, 18.500 eða 26.800 krónur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert